Leita til ýmissa sjóða varðandi sjóbaðsaðstöðu í Neskaupstað

Hópur fólks sem vill koma upp fyrsta flokks aðstöðu fyrir fólk sem áhuga hefur á að njóta gufubaðs, heitrar laugar og flottrar aðstöðu við sjóinn í Neskaupstað hefur undanfarið lagt inn umsóknir um styrk til verksins til ýmissra aðila. Þar á meðal til Uppbyggingarsjóðs Austurlands.

Það staðfestir arkitektinn Ólafía Zoëga, ein þeirra sem leiðir hópinn sem telur fleiri hundruð manns á þessu stigi.

Þau vilja gjarnan nýta lóð eina í bænum undir kósí aðstöðu við sjávarmál sem nýst gæti stórum hópi bæjarbúa hvort sem er til samveru í sánabaði, heitum potti ellegar sem samastaður fyrir þá sem leita sér afþreyingar á sjónum útifyrir bænum. Hópurinn kynnir hugmyndir sínar á Facebook undir nafninu Baðstofan í Kvíabólsfjöru.

Sá hópur var stofnaður 2021 en töluverður áhugi er til að mynda á sjósundi og sjóböðum meðal margra í Neskaupstað. Slíkur staður myndi einnig vel gagnast öðrum aðilum eins og kajakræðurum sem og öðrum bæjarbúum sem njóta vilja nálægðar við sæinn undir góðu yfirlæti. Bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð hafa þegar samþykkt að lóðin verði nýtt undir baðstofu.

Fjallað var um hugmyndir hópsins í 39. tölublaði Austurgluggans í byrjun síðasta mánaðar en sjálf er Ólafía þeirrar skoðunar að jákvæð og uppbyggileg verkefni sem þetta fái sérstakt brautargengi með tilliti til mikilla áfalla sem dunið hafa yfir í bænum síðustu misserin. Slíkt verkefni kallist líka vel á sögu Neskaupstaðar en á tímabili voru hvorki fleiri né færri en 40 bryggjur í bænum þó þeirri sögu séu lítil skil gerð almennt.

Frumteikning Ólfíu sjálfrar af aðstöðunni. Þar yrði athvarf allra þeirra sem stunda sjóinn í afþreyingarskyni. Aðsend mynd

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.