Lögin um stjórnlagaþingið voru illa samin: Önnur niðurstaða hefði grafið undan kosningakerfinu

gisli_audbergsson.jpgGísli M. Auðbergsson, eigandi austfirsku lögmannsstofnunnar Réttvísi, segir ljóst að lög um kosningar til stjórnlagaþings hafi verið illa samin. Hefði Hæstiréttur ekki ógilt kosningarnar hefði það rýrt tiltrú Íslendinga á kosningakerfinu. Í kæru Réttvísi var meðal annars vísað til ákvæða í stjórnarskrá um leynd kosninga.

 

„Niðurstaða Hæstaréttar kemur í rauninni ekki á óvart, ágallarnir sem kært var fyrir voru einfaldlega of alvarlegir til að hægt væri að komast að annarri niðurstöðu,“ sagði Gísli í samtali við Agl.is.

Fallist á þrjú atriði af fimm í kærunni

Esther Hermannsdóttir hjá lögmannsstofunni rak mál Þorgríms S. Þorgrímssonar, íbúa í Neskaupstað, sem kærði stjórnlagaþingskosninguna. Í kærunni er gerðar athugasemdir við að kjörseðlar hafi verið númeraðir, pappaskilrúm hafi verið í stað hefðbundinna kjörklefa og leynd því ekki nægjanleg, kjörkassar ófullnægjandi, kjósendur sviptir rétti til að kjósa í annarri kjördeild og kjörseðlar ósamanbrjótanlegir.

Í áliti Hæstaréttar, sem dæmi kosninguna ógilda í dag, er ekki fjallað um sviptingu kjörréttarins og ekki fallist á að samanbrjótanlegu seðlarnir teljist brot á réttindum kjósenda. Á hin þrjú atriðin er fallist. Það er talinn verulegur annmarki að kjörseðlarnir voru númeraðir. Dómurinn álítur það annmarka að pappakjörklefarnir hafi verið notaðir og ekki hafi verið hægt að læsa kjörkössunum en auðvelt að taka þá í sundur og komast í seðlana.

Að auki telur dómurinn það verulegan annmarka að ekki hafi verið skipaður umboðsmaður frambjóðenda við kosninguna og annmarki að talningin hafi ekki verið fyrir opnum tjöldum.

Gísli segir að síðasttalda atriði hefði mátt laga með að telja aftur en hinum ekki nema með að ógilda kosningarnar.

„Önnur niðurstaða hefði gengisfellt alla framkvæmd kosninga á Ísland“

„Það hefði verið mikið áhyggjuefni ef rétturinn hefði komist að annarri niðurstöðu, því það hefði gengisfellt alla framkvæmd kosninga á Íslandi,“ segir Gísli. „Nýlega kom erlend eftirlitsstofnun og fylgdist með kosningum á Íslandi og niðurstaðan var sú að Íslendingar bæru mikið traust til kosningakerfisins hér. Öfug niðurstaða hefði fellt það traust, en með þessari niðurstöðu tekst vonandi að halda því.“

Lögin illa samin

Gísli segir að Alþingi verði að taka ákvörðun um viðbrögð við áliti Hæstaréttar. Ýmsir gallar hafi verið á upphaflegu lögunum og því sé komin upp sú erfiða staða sem nú er.

„Það verður að segjast að lögin um stjórnlagaþing eru illa samin. Meðal ágalla á þeim er það að ekkert er fjallað um hvað gerist ef kosningarnar verða ógiltar. 115. gr. laga um Alþingiskosningar fjallar um að ef slíkar kosningar séu ógiltar, þá beri dómsmálaráðuneytinu (innanríkisráðuneytinu) að framkvæma aðrar kosningar.

Í stjórnlagaþingslögunum er vísað til greinarinnar á undan 115. gr. og greinarinnar á eftir en ekki 115. gr. Það hlýtur þá að þýða það að boltinn er ekki núna hjá ráðuneytinu heldur Alþingi að taka nýja ákvörðun um hvað skuli gera, hvort skuli kjósa að nýju eða hætta við svo búið.“

Hvaða þörf er á endurskoðun stjórnarskrárinnar ef við förum ekki eftir henni?

„Meðal  þess sem var vísað til í kæru Réttvísi ehf. voru ákvæði stjórnarskrárinnar um leynd kosninga.  Ágætur maður kom að máli við mig  í morgun og sagði um kæruna:

„Þetta snýst um kosningar til Stjórnlagaþings sem er ætlað að endurskoða stjórnaskrána. Ef það er ekki hafið yfir allan vafa að þá sé farið eftir gildandi stjórnarskrá, hvenær er þá farið eftir henni?“ segir Gísli og spyr: „Hvaða þörf er þá á endurskoðun ef við förum ekki eftir henni?

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar