Lögreglan rannsakar kærur Djúpavogs- og Vopnafjarðarhreppa gegn Gift
Kærur Djúpavogs- og Vopnafjarðarhreppa á hendur fyrrverandi stjórnendum Giftar vegna meðferðar þeirra á eigum Samvinnutrygginga hefur verið tekin til meðferðar hjá efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra. Sveitarfélögin telja sig hafa orðið samtals af tvö hundruð milljónum króna.
Frá þessu var greint í DV í vikunni. Forsvarsmenn sveitarfélaganna kærðu málið í fyrra, meðal annars á grundvelli umboðssvika. Í frétt DV segir að málið sé rannsakað sem lögreglumál hjá efnahagsbrotadeildinni. Fjármálaeftirlitið hafi einnig til meðferðar ábendingar um starfsemi Giftar.
Talið er að Djúpavogshreppur hafi orðið af 80 milljónum króna og Vopnafjarðarhreppur um 120 milljónum. Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri Djúpavogshrepps, hefur spurst fyrir stöðu málsins bréflega en engin svör fengið.