Líklega tugmilljóna tjón á Stöðvarfirði
Þakplötur hafa fokið af minnst sjö húsum á Stöðvarfirði, heilt þak hvarf í heilu lagi af bílskúr í bænum, eitt gróðurhús fauk út í hafsauga og rúður hafa brotnað allvíða. Engin slys hafa orðið á fólki en heimamaður á staðnum telur lítinn vafa á að tjónið í bænum skipti tugum milljóna nú þegar.
Allra verstu hviður yfirstandandi óveðurs austanlands hafa hingað til mælst á Stöðvarfirði þar sem vindhraðinn fór í hvorki meira né minna en 57 metra á sekúndu þegar verst lét. Þar er enn ofsaveður að sögn Bjarna Stefáns Vilhjálmssonar en hann er ásamt hópi björgunarsveitarmanna að reyna að takmarka tjónið eins og kostur er.
„Ég myndi halda að miðað við umfang tjóns sem við vitum af núna séum við örugglega að tala um tugmilljóna króna tjón. Þakplötur hafa fokið af held ég einum sjö húsum nú þegar, bílskúrsþak fauk í heilu lagi og sama gerði eitt gróðurhús. Eitthvað er líka um brotnar rúður hjá fólki og landgangur í höfninni fór í sjóinn svo fátt sé nefnt sem ég veit um á þessu stigi. Þá er ótalið tjón á bílum sem er afar líkegt fyrir utan að annað hvert tré hér í bænum er bara í kubbum.“
Bjarni Stefán segir að björgunarsveitarhópurinn geri sitt besta en ekki hefur verið hægt að senda hjálp til þeirra að svo stöddu frá öðrum stöðum.
„Það hefur ekki verið hægt enn sem komið er en vonandi fer aðeins að lægja bráðlega svo hægt sé að senda meiri hjálp. Það blæs ennþá mjög duglega hér. Það lægði aðeins í nótt milli 3 og 5 svo við náðum í smá lögn á þeim tíma en svo vorum bara komnir út aftur. En sem betur fer engin slys á fólki sem vitað er af.“
Nýjasta Veðurspá Veðurstofu Íslands gerir ráð fyrir að vind fari hugsanlega að lægja lítillega á næstu klukkustund eða tveimur en rauðar viðvaranir er enn í gildi fram á kvöld bæði á Austfjörðum og Austurlandi að Glettingi.