Skip to main content

Líneik Anna nýr stjórnandi fræðslu- og skólaþjónustu Fjarðabyggðar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. jan 2025 14:54Uppfært 22. jan 2025 15:09

Sveitarfélagið Fjarðabyggð auglýsti í lok nóvember stöðu stjórnanda fræðslumála og skólaþjónustu lausa til umsóknar og bárust tvær umsóknir um stöðuna. Nú hefur Líneik Anna Sævarsdóttir sem sinnt hefur þingmennsku fyrir Framsóknarflokkinn síðasta áratug eða svo verið ráðin í starfið.

Þetta er tilkynnt á vef sveitarfélagsins en Líneik Anna, sem gaf ekki kost á sér í síðustu Alþingiskosningum, tekur við því starfi af Önnu Marín Þórarinsdóttur sem sagði starfinu lausu síðasta haust.

Líneik býr yfir reynslu af skólamálum í sveitarfélaginu frá fyrri tíð en hún starfaði bæði sem kennari og skólastjóri við Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar á sínum tíma auk þess að stýra Fræðsluneti Austurlands og sinna verkefnum fyrir Austurbrú.

Líneik er með BS-gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands, prófs í uppeldis- og kennslufræðum til kennsluréttinda auk diplóma í opinberri stjórnsýslu. Hún mun hefja störf með vorinu.