Línur lagðar með byggingu lífkolaverksmiðju á Eskifirði
Fyrirtækið Tandraberg stefnir á að reisa lífkolaverksmiðju með allt að tveimur framleiðslulínum á nýju iðnaðarsvæði á Eskifirði skammt frá gangamunna Norðfjarðaganga. Hvor lína um sig gæti framleitt um 500 kwh af orku sem gæti skipt nokkrum sköpum fyrir hitaveituna í bænum.
Tilraunir með lífkol hérlendis hafa ekki staðið lengi yfir en þó gefið afar góðar niðurstöður. Slíkt ferli byggir á bruna á timbri í lokuðum súrefnisfirrtum tönkum en við það kolast timbrið og umbreytist í allt að 95% hreint kolefni. Tvö önnur efni myndast í ferlinu, metan og vetni, en þau er hugmyndin að brenna í samtengdri kyndistöð svo engin efni sleppa út í andrúmsloftið.
Að sögn Einars Birgis Kristjánssonar, framkvæmdastjóra Tandrabergs, gera áætlanir fyrirtækisins ráð fyrir að sett verði upp ein framleiðslulína í byrjun. Slík lína nær að framleiða þúsund tonn af lífkolum árlega með um fjögur þúsund tonnum af grisjunartimbri sem ætlunin er að fá á Héraði. Í öðrum áfanga er hugmyndin að síðari línan notist eingöngu við úrgangsvið sem ekki nýtist í annað.
Uppbót fyrir hitaveituna
Sveitarfélagið Fjarðabyggð hefur sýnt verkefninu mikinn áhuga og af þessu tilefni skrifað undir viljayfirlýsingu við Tandraberg í sumar. Ástæða þess að sögn Einars er að lífkolagerðin gæti skipt nokkrum sköpum fyrir hitaveitu Eskifjarðar til framtíðar.
„Hitaveitan á Eskifirði er þannig að borholan er að öllum líkindum ekki sjálfbær og með því að nota þá hitaorku sem verður til við kolagerðina sem búst er við inn á hitaveituna mun líftími borholu bæjarbúa lengjast. Að hluta til er þessi ákveðna staðsetning valin vegna nálægðar við dælustöð hitaveitunnar en aðeins eru nokkrir tugi metra þarna á milli.“
Fleira nýtilegt
Önnur aukaafurð sem til fellur við allt ferlið er viðarolía sem er brennanleg og myndi flokkast sem lífolía sem er á pari við lífdísil og alfarið koltvísýringshlutlaus. Kolin sjálf eru einnig vel nýtanleg til margra hluta eins og sem jarðvegsbætir, íblöndunarefni fyrir bæði dýr og sem bætiefni í steypu eða malbik til að lækka kolefnishlutfall slíkra efna.