„Lítil stefnubreyting í nýjum kjarasamningum þrátt fyrir virðulega nafngift“
Friðurinn mun ekki halda ef aðrar stéttir fá meiri hækkanir í sínum kjarasamningum heldur en samið var um við verka- og verslunarfólk. Eftir á að koma í ljós hvernig ríkið stendur við loforð sem það gaf til að liðka fyrir gerð kjarasamninga í síðasta mánuði.„Ef aðrir hópar semja út fyrir þann ramma sem nýgerðir kjarasamningar settu – er öll sátt úti og þá þarf að blása til aðgerða því við munum ekki sætta okkur við enn einn ganginn að verkafólk axli ábyrgðina en aðrir fleyti rjómann af,“ segir í 1. maí ávarpi AFLs Starfsgreinafélags sem flutt var í gær. Nýgerðir kjarasamningar voru eðlilega í brennidepli ávarpsins.
Þar var því fagnað að umræða um verkalýðsmál hefði verið mikil undanfarin misseri og talsvert endurnýjun í forustusveit verkalýðshreyfingarinnar. Bundnar hefðu verið vonir um að nýir leiðtogar gerðu nýja samninga sem snéru vörn í sókn.
Að mati forustufólks AFLs var takmarkað staðið undir þeim vonum. Í ávarpinu er rifjað upp að Alþýðusamband Íslands hafi verið gagnrýnt fyrir að axla ábyrgðina á efnahagslegum stöðugleika. Það sé aftur með nýju samningunum, en talsmenn þeirra leggi einmitt áherslu á að þeir tryggi stöðugleika veiti forsendur til vaxtalækkana.
„Þrátt fyrir virðulega nafngift lífskjarasamninganna eru þeir í raun lítil stefnubreyting frá fyrri samningum. Við sömdum um kauphækkun og ríkisvaldið lofaði skattalækkun á láglaunahópa, aðgerðum í húsnæðismálum og átaki í baráttu gegn kennitöluflakki og fleiru. Við höfum oft séð þessi loforð áður.“
Stóra málið hvernig ríkið stendur við sín loforð
Í ljósi mikillar umræðu var dræm kjörsókn og lítil umræða um samningana vonbrigði í hugum forustufólks AFLs. Kjörsókn hjá félaginu var með því minnsta í sögulegu samhengi, þótt hún væri ein sú mesta á landsvísu.
Talað er um að vonir séu bundnar við að samningarnir leiði til aukins kaupmáttar og lægri vaxta. Um þá sé hins vegar mikil óvissa þar sem fyrirheit ríkisins séu að stærstu leyti óútfærð.
„Stóra málið er auðvitað hvort og hvernig ríkisvaldið mun framfylgja fyrirheitum sínum því verkalýðsfélögin semja ekki um samfélagsskipan – það er einfaldlega ekki á valdi félaganna. Samfélagsgerðin er mótuð af löggjafanum. Þess vegna skiptir það höfuðmáli að bæði við í verkalýðsfélögunum og hinn almenni borgari þessa lands fylgi fyrirheitunum eftir og krefjist aðgerða af stjórnvöldum.“
Í ávarpinu er bent á að enn séu eftir kjarasamningar. Samningar iðnaðarmanna virðast á lokametrunum, viðræður eru hafnar við starfsmenn hjá ríki og sveitarfélögum auk þess sem framundan eru samningar sem nái ekki yfir félagsmenn AFLs.
„Það reynir því á opinbera aðila og samtök atvinnulífsins á næstu vikum. Ef samið verður á rausnarlegri nótum við aðra aðila en verkafólk og verslunarmenn – rofnar traust á milli aðila meir en þegar er orðið.“
Frá 1. maí kaffi AFLs. Mynd: AFL/Valborg Jónsdóttir