Ljósleiðari í sundur við Möðrudal
Verktaki að störfum við Möðrudal á Fjöllum tók í dag sundur ljósleiðarann sem liggur milli Akureyrar og Egilsstaða. Viðgerðarmenn eru á leið á staðinn.Strengurinn sem um er að ræða er stofnstrengur Mílu. Áhrif af slitinu eru talin óveruleg þar sem þéttbýlissvæði á Norðaustur- og Austurlandi eru tengd úr fleiri en einni átt.
Bilunin er við Vegaskarð og er nákvæmlega vitað hvar slitið er. Viðgerðarmenn á vegum Mílu eru lagðir af stað frá Egilsstöðum og Akureyri.
Ekki er ljóst hversu langan tíma tekur að gera við strenginn, enda nokkuð vandasamt verk þegar jafn öflugur strengur fer í sundur en kappkostað verður að vinna sem hraðast.
Ekki er vitað hver áhrif slitsins eru á fjarskipti á Austurlandi. Það veltur á tengingum fjarskiptafélaganna. Ekki tókst að fá upplýsingar þaðan við vinnslu fréttarinnar.