Ljósleiðari milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar
Í dag var staðfest samkomulag um framlög fjarskiptasjóðs til framkvæmda Neyðarlínunnar sem meðal annars fela í sér lagningu ljósleiðara milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar.
Samkomulagið staðfestu Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu og sveitarstjórnarráðherra, Páll Jóhann Pálsson, formaður stjórnar fjarskiptasjóðs og Þórhallur Ólafsson, forstjóri Neyðarlínunnar, fyrr í dag. Lagning ljósleiðara er fyrri hluti hringtengingar á Austfjörðum og mun bæta öryggi og búsetuskilyrði íbúa í Mjóafirði.
Í heild er um að ræða 71 m.kr. framlag fjarskiptasjóðs til verkefna Neyðarlínu árið 2019. Verkefnin eru þrjú; Lagning ljósleiðara milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar, lagning ljósleiðara frá Bláfellshálsi á Kili að Kerlingarfjöllum og Hveravöllum og bygging þriggja fjarskiptastaða til að bæta farsímaþjónustu á svæðum vestan við Snæfellsjökul.
Fjarskiptasjóður og Neyðarlínan hafa átt samstarf um uppbyggingu fjarskiptainnviða utan markaðssvæða í yfir 10 ár. Samstarf fjarskiptasjóðs og Neyðarlínu um lagningu ljósleiðara hefur jafnframt aukist síðustu ár.