„Loðnubresturinn mun hafa áhrif á þessu ári“

Aðalfundur Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði var haldinn á föstudaginn var en hagnaður af rekstri fyrirtækisins í fyrra var um 700 miljónir. Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastóri Loðnuvinnslunnar segir afkomuna vel viðunandi.

„Þetta er viðunandi afkoma miðað við það að krónan var sterk fyrstu níu mánuði ársins. Loðnuvinnslan er gerð upp með 700 miljóna hagnaði. Hreint veltufé frá rekstri, eða það sem reksturinn er að búa til af fjármunum var 1,5 miljarður,“ segir Friðrik.

Friðrik segir loðnubrestinn í ár ekki koma fram á ársreikning síðasta árs sem til umfjöllunar var á aðalfundinum, en loðnuvertíðin hafi verið fyrirtækinu drjúg og því muni loðnubresturinn hafa áhrif þegar kemur að uppgjöri þessa árs. „Framleiðsluverðmætið á loðnuvertíðinni í fyrra var um 2,7 miljarðar og við tókum á móti tæpum 30.000 tonnum þannig að þetta hefur veruleg áhrif. Það hefur engu að síður verið full starfsemi, í bolfiski en ekki þessi uppgripavinna eins og oft áður. Það mun þó hjálpa okkur á þessu ári að það var til töluvert af loðnuhrognum síðan í fyrra en þau eru seld núna á mun hærra verði en áður var,“ segir Friðrik.

Hagnaður af rekstri félagsins er 135% hærri en síðasta ár. Tekjur Loðnuvinnslunnar af frádegnum eigin afla voru 9.099 milljónir sem er 24% veltuaukning milli ára. Eigið fé félagsins í árslok 2018 var 7.955 milljónir. Rekstur Loðnuvinnslunnar hefur verið mjög arðbær síðustu ár en hagnaður fyrirtækisins hefur verið samtals 5,6 milljarðar síðustu 5 ár, fjármunamyndun 7 milljarðar og eigið fé hefur vaxið úr tæpum 3 milljörðum í tæpa 8 milljarða. Samþykkt var á aðalfundinum greiða 15% arð til hluthafa.

Stærsti hluthafi í Loðnuvinnslunni er Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga sem á 83% eignarhlut í fyrirtækinu en Kaupfélagið er samvinnufélag sem er í eigu íbúa á Fáskrúðsfirði. Þá styrktu bæði Loðnuvinnslan og Kaupfélagið margvísleg samfélagsverkefni á Fáskrúðsfirði fyrir samtals tæplega 23 milljónir króna. Meðal þeirra sem hlutu samfélagsstyrki voru; nokkrar deildir ungmennafélagsins Leiknis, Áhugahópur um Fjölskyldugarð á Fáskrúðsfirði, Franskir dagar, Hollvinasamtök félagsheimilisins Skrúðs, Dvalarheimilið Uppsalir, Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar og Björgunarsveitin Geisli.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.