Lokanir við Kárahnjúka í sumar vegna framkvæmda

Reglulegar lokanir verða á leiðinni yfir Kárahnjúkastíflu í sumar vegna framkvæmda við hrunvarnir í Fremri-Kárahnjúk. Framkvæmdir hefjast í dag og reiknað er með að þær standi í tvo mánuði eða til 25. ágúst.

Á þessum tíma stendur til að endurnýja hrunvarnagirðingu ofan vegarins í Fremri-Kárahnjúk. Meginþungi lokana verður í fyrstu og síðustu viku en þó er nauðsynlegt að loka eitthvað á öðrum tímum framkvæmdarinnar. Reynt verður að stilla þeim í hóf en öryggi starfsfólks og vegfarenda gengur ávallt fyrir.

Lokunin verður annars vegar við inntakið á milli Desjarárstíflu og Kárahnjúkastíflu og hins vegar við norðurenda Kárahnjúkastíflu. Ekki verður hægt að fara hjáleið.

Miðað er við að hafa lokað frá kl. 7 til 19 þá daga sem loka þarf en opna til að hleypa umferð í gegn á þessum tímum:
10.00 – 10.15
13.00 – 13.15
16.00 – 16.15

Sett verða upp skilti í Fljótsdal við Bessastaði og á Fiskidalshálsi á Brúardalaleið með upplýsingum um lokanirnar og tímasetningar. Þá verða fyrirhugaðar lokanir auglýstar í útvarpi, á vef Landsvirkjunar og á vef Vegagerðarinnar. Hægt verður að fylgjast með takmörkunum á umferð á vefsíðunni: www.landsvirkjun.is/tilkynning


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar