Málin frá Norðfirði og Vopnafirði komin til saksóknara

Lögreglan á Austurlandi hefur lokið rannsóknum sínum á andláti eldri hjóna í Neskaupstað í ágúst og hrottalegri líkamsárás á Vopnafirði um miðjan október. Málin eru núna bæði til meðferðar hjá Héraðssaksóknara.

Gæsluvarðhald rennur út í dag yfir karlmanni sem var fyrst um miðjan október handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald fyrir hrottalega árás á fyrrum sambýliskonu sína á Vopnafirði. Í greinargerð lögreglu, sem lögð var fram fyrir dómi, er árás heimfærð sem tilraun til manndráps.

Þær upplýsingar fengust hjá embætti Héraðssaksóknara að í dag verði farið fram á áframhaldandi fjögurra vikna gæsluvarðhald. Á þeim tíma verði tekin ákvörðun um útgáfu ákæru í málinu.

Í síðustu viku lauk rannsókn lögreglunnar á Austurlandi á andláti eldri hjóna í Neskaupstað í ágúst þegar málið var sent til Héraðssaksóknara til afgreiðslu og meðferðar. Karlmaður á fimmtugsaldri hefur sætt gæsluvarðhaldi og öryggisvistun síðar, vegna gruns um að hafa banað fólkinu. Núgildandi varðhald er til 20. desember og unnið er í málinu.

Lögreglan á Austurlandi rannsakar enn tildrög þess að eldur kom upp í húsnæði Austurljóss á Egilsstöðum um miðjan maí. Austurfrétt hefur fengið staðfest hjá lögreglu að þar sé grunur um íkveikju.

Hluti úr eftirlitsmyndavélakerfi í húsnæðinu var sendur til rannsóknar erlendis til að reyna bjarga úr honum gögnum sem varpað gætu ljósi á málavexti, en búnaðurinn skemmdist í eldinu. Enn er beðið eftir niðurstöðum þaðan.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.