Mánuður í viðbót í gæsluvarðhaldi í Norðfjarðarmáli

Karlmaður á fimmtugsaldri, sem grunaður er um að hafa orðið valdur að andláti tveggja einstaklinga í Neskaupstað í síðasta mánuði, hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 4. október.

Í hádeginu fimmtudaginn fimmtudaginn 22. ágúst barst lögreglunni á Austurlandi tilkynning um að hjón á áttræðisaldri hefðu fundist látin í húsi þeirra í Neskaupstað. Um leið og lögregla kom á vettvang kviknaði grunur um að það hefði borið að með saknæmum hætti.

Grunur féll strax á manninn sem tæpum tveimur tímum síðar var handtekinn í Reykjavík. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald og einangrun í viku, sem síðar var framlengt um eina viku.

Í tilkynningu lögreglunnar á Austurlandi kemur fram að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi í morgun fallist á kröfu lögreglustjórans á Austurlandi um áframhaldandi gæsluvarðhald í fjórar vikur, eða fram til 4. október. Miðað við orðalagið er maðurinn laus úr einangrun.

Þar segir að rannsókn málsins sé áfram í fullum gangi og miða vel. Framundan sé mikið verk við að vinna úr gögnum sem taki tíma. Þá sé ekki frekari upplýsinga að vænta frá lögreglu að svo stöddu.

Samkvæmt lögum um meðferð sakamála er ekki heimilt að láta sakborning sitja lengur en tólf vikur í gæsluvarðhaldi án þess að ákæra sé gefin út á hendur honum. Þó er undanþága til staðar vegna rannsóknarhagsmuna, svo sem er ætla má að viðkomandi torveldi rannsókn á hvern hátt, svo sem með að afmá merki eða hafa áhrif á vitni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.