Matvælaráðherra boðar hækkun á veiðileyfagjaldi

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, matvælaráðherra, hyggst á næstunni leggja til hækkun veiðileyfagjalds. Hún segir að sjávarútvegurinn verði að huga að því hvernig hann starfi í sátt við samfélagið.

Þetta kom fram í ávarpi Bjarkeyjar við setningu haustþings Sambands sveitarfélaga á Austurlandi í dag en Bjarkey er jafnframt þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi.

Bjarkey sagði sér hugleikið hvernig auka mætti traust í sjávarútvegi. „Aukið gagnsæi er eitt, veiðigjöldin er annað.“ Hún lagði þar áherslu á sjálfbærni með almennri umgengni um hafið, ábyrgri nýtingu og sanngirni í formi arðs af sameign þjóðarinnar.

Bjarkey sagði að með kvótakerfinu hefði náðst stjórn á ofveiði og tekist að byggja aftur upp fiskistofna sem voru við það að hverfa. Traustið hefði að einhverju leyti tapast aftur með frjálsu framsali veiðiheimilda.

Vill jafna stöðu strandveiðisjómanna


Bjarkey boðaði frekar lagabreytingar, svo sem frumvarp um vernd hafsvæða en stefnt er að vernd 30% hafsvæða innan íslensku lögsögunnar fyrir árið 2030 í takt við alþjóðlegar skuldbindingar. Hún sagði Íslendinga þar hafa góða sögu að segja og þyrftu ekki að vera feimnir.

Bjarkey sagði sjávarútveginn til í mörgum myndum, svo sem smábátaútgerð, nýsköpun, tæknivæðingu og strandveiðum. Hún hét því að jafna aðstöðu strandveiðisjómanna þar sem veiðar þeirra hefðu blásið lífi í margar hafnir í kringum landið.

Áhyggjur af fiskeldi á Seyðisfirði í andstöðu við heimafólk


Matvælaráðherra kom einnig inn á mikinn vöxt fiskeldis, sem sé orðinn 22% útflutnings sjávarafurða. Hún sagði eldið hafa skapað mikla atvinnu fyrri samfélagið en á sama tíma yrði að horfast í áskoranir á borð við umhverfisáhrif. Þess vegna þyrftu eldisfyrirtækin að fylgja ströngum skilyrðum til að geta starfað í sátt við samfélag sitt. Hún sagðist hafa áhyggjur af áformum um fiskeldi í Seyðisfiðri sem mættu andstöðu samfélagsins og spurði hvort iðnaðurinn vildi hafa fólkið á móti sér.

Þá lýsti Bjarkey áhyggju af stöðu bænda. Hún sagðist hafa rætt við bændur víða um landið sem væru þreyttir eftir kalt og blautt sumar. Þeir lýsi einnig áhyggjum af kostnaðarhækkunum, öfgum í veðurfari og ásókn erlendra fjárfesta í íslenskt land. Bjarkey sagði bændur áfram erfiðri stöðu þrátt fyrir stuðning sem átti að mæta slæmri stöðu. „Við þurfum að gera betur ef okkur er alvara með að íslenskir bændur haldi áfram að framleiða matvæli. Það snýst líka um sjálfsmynd okkar.“

Til viðbótar við sjávarútvegs- og landbúnaðarmál ræddi Bjarkey sérstaklega dreifingu opinberra starfa um landinu. Hún sagði að rúm 60% opinberra starfa væru á höfuðborgarsvæðinu sem þýddi að talsverðar líkur væru á að einstaklingur á höfuðborgarsvæðinu ynni fyrir ríki eða sveitarfélög. Hún sagði að oft væri nauðsynlegt að binda störf við ákveðna staðsetningu til að tryggja dreifingu þeirra um landið til að halda uppi atvinnu og þar með efla hag sveitarfélaga.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar