Matvælastofnun auglýsir tillögu að rekstrarleyfi fyrir fiskeldi í Seyðisfirði

Matvælastofnun auglýsti í dag tillögu sína að rekstrarleyfi vegna sjókvíaeldis Kaldvíkur í Seyðisfirði. Ala má allt að 10.000 tonn af laxi, þar af 6.500 tonn af frjóum fiski. Skilyrði eru meðal annars sett um festingar eldiskvíanna.

Tillagan byggir á áhættumati Hafrannsóknastofnunar um að heimilt sé að ala allt að 10.000 tonn í firðinum, þar af 6.500 tonn af frjóum laxi. Skilyrt er að ljósastýring sé notuð við eldi hans.

Eldissvæðin eru þrjú: Sörlastaðavík, Selstaðavík og Skálanesbót. Upphaflega var sótt um fjögur svæði en við ferlið óskaði fyrirtækið eftir að fallið yrði frá eldi undir Háubökkum, en það svæði hefði verið alveg í botni fjarðarins.

Það var gert eftir fyrstu athugasemdir íbúa. Stór hluti þeirra hafa gert fleiri athugasemdir og haldið uppi mótmælum gegn eldisáformunum. Þá hafa aðilar á borð við Farice, sem rekur samnefndan fjarskiptastreng í firðinum, gert athugasemdir við áformin.

Að einhverju leyti er brugðist við þeim athugasemdum í leyfinu. Þar segir að jaðar eldisstöðvar við Sörlastaðavík megi ekki vera nær mörkum hvíts ljósgeira vitaljósa en sem nemi 50 metrum. Þá skuli botnfestingar eldiskvía vera á meira en 15 metra dýpi þar sem þær lendi inn á hvítu svæði.

Eins er þess krafist að Kaldvík tryggi með óyggjandi hætti að enginn búnaður fari inn á helgunarsvæði Farice strengsins. Það er 500 metrar í hvora átt og liggur strengurinn nokkurn vegin inn miðjan fjörðinn.

Ekki er um útgáfu rekstrarleyfisins sjálfs, heldur tillögu að því. Almenningi gefst núna tækifæri til að senda inn athugasemdir og umsagnir við hana. Frestur til þess er fram til 20. janúar 2025.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.