Meira mæðir á heimafólki út af Covid-19
Covid-19 faraldurinn hefur hamlað því að hægt sé að senda viðbragðsaðila annars staðar af landinu til stuðnings heimafólki í hamförunum á Seyðisfirði. Ríkislögreglustjóri segir fólk hafa staðið sig vel en augljóst sé að þreyta sé farin að segja til sín.„Það sem sker þessa almannavarnaaðgerð frá öðrum er að heimamenn hafa þurft að standa vaktina lengur en annars. Venjulega værum við búin að senda meiri mannskap til stuðnings en vegna Covid-19 vildum við reyna að vanda okkur við hve mikinn mannskap við sendum.
Við pössum líka að allir séu skimaðir þannig við yfirflæðum ekki svæðið af fólki sem hugsanlega skapar meiri hættu.
Þess vegna höfum við þurft að reiða okkur alfarið á mat heimafólks á hvers konar bjargir þarf. Svo verður fólk að hvílast,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri.
Kerfið byggt utan um vettvanginn
Hún bendir á að björgunarsveitirnar séu alltaf hryggjarstykkið í viðbúnaði eins og verið hefur á Seyðisfirði nú í rúma viku. Lengst af stóðu heimamenn sjálfir í eldlínunni en eftir stóru skriðuna á föstudag kom björgunarsveitarfólk frá öllu Austurlandi sem og Norðurlandi til skjalanna.
Síðan koma að gerðunum lögregluþjónar og fleiri sérfræðingar. Í venjulegu ári væri fleira fólk úr öllum þessum hópum komið á svæðið. „Kerfið byggist utan um vettvanginn og allir styðja við stjórnina þar. Aðgerðastjórn í héraði gætir þess að vettvangurinn fái allt sem hann þarf og svo er það samhæfingarstjórnin sem styður við hana,“ útskýrir Sigríður Björk.
Stolt yfir faglegum vinnubrögðum
Þeir sem staðið höfðu í eldlínunni samfleytt í viku voru fengu loks hvíld eftir gærdaginn og Sigríður Björk segir að á næstunni muni smám saman bætast í afleysingahópinn. „Við vöndum okkur mjög mikið við valið til að setja engan í Covid-hættu á sama tíma. Það getur verið erfitt að viðhalda sóttvörnum á svona aðstæðum, til dæmis í fjöldahjálparmiðstöðvum.“
Sigríður Björk var í fylgd með fjórum ráðherrum og fleira lykilfólki sem kom til að skoða aðstæður á Seyðisfirði í gær. „Það var mjög gott að fá að koma, upplifa líðan fólks á svæðinu og sjá með eigin augum skemmdirnar og ummerkin um þessar náttúruhamfarir. Það hefur greinilega mikið gengið á. Sem betur fer urðu ekki slys á fólki sem er með ólíkindum miðað við við ummerkin.“
Hún nýtti daginn meðal annars til að ræða við austfirskt lögreglufólk. „Það hafa allir staðið sig ofboðslega vel, bæði lögreglumenn á vettvangi, stjórnendur og yfirstjórnin. Ég fyllist stolti yfir hve fagleg vinnubrögðin hafa verið en ég skynja líka hvað menn eru orðnir þreyttir. Því þarf líka að huga að hvíld.“
Á vegum almannavarna var í gær opnuð þjónustumiðstöð fyrir íbúa í Herðubreið. „Það er mikilvægt að fólk sæki þangað og tali um málin við sérfræðinga, því það er mikið áfall að lenda í svona,“ segir Sigríður Björk.
Átakið eftir aðventustorminn skilar árangri
Hún benti einnig á það í ferðinni að það hefði verið heppilegt að hlutir eins og fjarskipti og rafmagnskerfi þoldu álagið að mestu í hamförunum. Það sé meðal annars að þakka viðbragði ríkisstjórnarinnar og Neyðarlínunnar eftir veðurofsann í desember í fyrra.
„Þá komu í ljós ákveðnir veikleikar og það var veitt fé til að bregðast við þeim. Neyðarlínan hefur síðan verið óþreytandi í að byggja upp kerfið og passa að þessir veikleikar séu ekki til staðar. Það hefur verið reynt að styrkja fjarskiptin okkar sem eru mikilvæg. Svo hafa veitufyrirtækin sýnt hvað þau eru öflug, þannig það leggjast allir á eitt.
Á Seyðisfirði tókst til dæmis að setja á varaafl þannig að hægt var að halda rafmagni á og fjarskipti héldu, sama hvað á gekk. Ég hef enga meldingu fengið um að þau hafi ekki þolað álagi. Viðbrögðin voru líka fumlaus og fólki var komið í skjól.“