Merkja ekki aukið ofbeldi meðal austfirskra ungmenna
Hvorki lögreglan á Austurlandi né félagsmálayfirvöld merkja aukið ofbeldi eða vopnaburð meðal austfirskra ungmenna. Fjögur ráðuneyti standa að baki nýstofnuðum aðgerðahópi gegn ofbeldi í garð og meðal ungmenna.„Við sjáum engar breytingar eða þróun í átt við þá sem sérstaklega virðist eiga sér stað á höfuðborgarsvæðinu. Í okkar tölum merkjum við ekki breytingar svo sem fjölgun barna eða ungmenna á okkar skrá, hnífaburð meðal þeirra, almenna fjölgun ofbeldisbrota eða fjölgun alvarlegri brota.
Við heyrum heldur ekki af neinum breytingum frá þeim stofnunum sem við vinnum með. Það er þétt samstarf milli lögreglu og félagsþjónustu þar sem farið er sérstaklega yfir málefni ungmenna,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi.
Júlía Sæmundsdóttir, félagsmálastjóri Múlaþings, segist sammála Kristjáni. Þar séu hvorki merki um aukið ofbeldi né hnífaburð. Inga Rún Beck Sigfúsdóttir, stjórnandi barnaverndar Fjarðabyggðar, kveðst heldur ekki merkja aukinn vopnaburð ungmenna. Almennt virðist ekki mikið um slíkt í skólum í Fjarðabyggð. Í gegnum tíðina hafi alltaf verið stöku ungmenni með hníf á sér en viðbrögð samfélagsins við slíku séu ákveðnari en áður.
Fjölgun alvarlegra brota á landsvísu
Lögreglan á Austurlandi sendi í júlí frá sér tölur um afbrot á Austurlandi á fyrstu sex mánuðum ársins. Ofbeldisbrot eru álíka mörg og síðustu fjögur ár og vel innan skekkjumarka samanborið við árin þar á undan.
Aðgerðahópurinn, sem skipaður var fyrir tveimur vikum, er meðal annars komið á fót í kjölfar skýrslu um ofbeldi barna sem ríkislögreglustjóri sendi frá sér í júní. Í þeirri skýrslu kemur fram að ofbeldisbrotum barna og ungmenna hafi ekki fjölgað frá árinu 2007, þau hafi hins vegar orðið alvarlegri.
Þar kemur einnig fram að fjölda ofbeldisbrota hafi fækkað á árunum eftir hrun og orðið fæst árið 2014 en síðan aukist, en vart umfram það sem vænta má með fjölgun mannfjölda. Hlutfallslega hafa ofbeldisbrot barna fylgt þróuninni.
Þá kom nýverið út skýrsla mennta- og barnamálaráðherra um ofbeldi og vopnaburð í skólum sem Jódís Skúladóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi, óskaði eftir á Alþingi. Þar kemur fram að fjöldi tilkynninga til barnaverndarþjónustu vegna barna sem beiti ofbeldi hafi tvöfaldast frá árinu 2018-2023. Á móti komi fram í íslensku æskulýðsrannsóknum að hlutfall stráka sem lendi í slagsmálum hafi lækkað meðan hlutfalli sé stöðugt hjá stúlkum.
Báðir austfirsku framhaldsskólarnir hafa eins og aðrir framhaldsskólar birt á vefsíðum sínum bréf frá mennta- og barnamálaráðuneytinu um að vopnaburður sé bannaður í skólanum og öll slík tilvik verði tilkynnt til lögreglu. Þar eru foreldrar hvattir til að ræða við börn sín um hvernig öruggt samfélag sé skapað, hverjar afleiðingar ofbeldis geti verið og hvar þau geti leitað að stuðningi.
Öruggara Austurland liður í að tryggja inngrip í tíma
Í október í fyrra var skrifað undir samstarfsyfirlýsingu um verkefnið Öruggara Austurland. Það er leitt af lögreglustjóranum á Austurlandi en unnið með sveitarfélögum, framhaldsskólum, UÍA, HSA og Austurbrú og Austurlandsprófastsdæmi. Það felur meðal annars í sér forvarnir gegn afbrotum. Með því var formgerð enn frekar samstarf sem lögreglan hefur átt í um árabil.
„Við fylgjumst vel með þróuninni í samstarfi við ýmsa aðila sem allir leggja sitt af mörkum með okkur og við með þeim. Innan samstarfsvettvangsins er farið yfir ástandið, rýnt í tölur og leitað leiða til úrbóta ef þarf. Almennt virðist ástandið hjá börnum og ungmennum á Austurlandi ágætt. Vonandi helst það þannig og við sjáum engin merki í aðra átt.
Við erum meðvituð um að það er samfélagslegt verkefni að tryggja að ungmennin okkar hafi það gott og reynum að haga vinnunni í samræmi við það, með sífellt auknu samstarfi og ekki síst aðkomu ungmennanna sjálfra gegnum ungmennaráð sveitarfélaganna til að mynda.“