Búist við mestri úrkomu eystra

Veðurfræðingar búast við að mest af þeirri úrkomu sem fylgir miklu óveðri sem gengur yfir landið á morgun falli á Austurlandi. Skólahaldi hefur þegar verið aflýst í nokkrum skólum og ferðir Strætisvagna Austurlands felldar niður.

Skólahaldi hefur verið aflýst í Fellaskóla, Brúarásskóla og Verkmenntaskóla Austurlands. Allir skólar Fjarðabyggðar verða opnir en foreldrar sem ákveða að senda börn í skólana eru beðnir að fylgja þeim bæði í og úr skóla. Foreldrar sem hafa börn sín heima eru beðnir um að láta vita.

Ferðir Strætisvagna Austurlands, frá Reyðarfirði hálf átta að morgni og úr Neskaupstað hálf fjögur síðdegis falla því niður.

Að auki falla niður allar ferðir til og frá Seyðisfirði, Djúpavogi, Borgarfirði. Athuganir verða á morgunferðum milli Reyðarfjarðar og Neskaupstaðar og Breiðdalsvíkur og Reyðarfjarðar. Upplýsingar upplýsingar eftir því sem deginum vindur fram má finna á Facebook-síðu SvAust.

Fagradal og Fjarðarheiði verður lokað á morgun. Öllu innanlandsflugi hefur verið aflýst. Ljóst er að ekkert verðaverður verður í fjórðungnum og hefur lögregla beðið fólk um að halda sig heima. Eigendur báta eru beðnir um að huga að þeim.

Samkvæmt tilkynningu frá Íslandspósti má búast við röskun á póstþjónustu og verður opnun pósthúsa á Austurlandi metin í fyrramálið.

Á Djúpavogi hefur spilavist sem halda átti í Löngubúð annað kvöld verið frestað til laugardags.

Í tilkynningu frá Rarik segir að miklar líkur séu á að veðrið hafi áhrif á dreifingu rafmagns fram eftir degi. Fólki er ráðlagt að slökkva á þeim raf­magns­tækj­um, sem slökkva ekki á sér sjálf þegar rafmagni slær út og sem geta valdið tjóni þegar rafmagn kem­ur á að nýju. Þetta á meðal annars við um elda­vél­ar og fleiri hit­un­ar­tæki en einnig er ráðlegt að slökkva á viðkvæm­um tækj­um á borð við sjón­vörp. Þá hefur reynst mörgum vel að að eiga vasaljós að grípa til því farsímaljós eru fljót að tæma farsímarafhlöður enda símarnir orkufrekir. Þá er minnt á að rafmagnsleysi getur haft áhrif á fjarskipti og aðra þjónustu sem háð er rafmagni. Sendar verða út upplýsingar í SMS skilaboðum til þeirra viðskiptavina sem verða rafmagnslausir. 

Samkvæmt veðurspá Bliku mun úrkoma lægðarinnar falla að langmestu leyti á Austurlandi. Snemma í nótt byrjar að hríða á svæðinu frá Mýrdal og austur í Berufjörð. Þar verður hvasst og blindbylur í fyrramálið. Búist er við að ástandið lagist milli 10 og 12 þegar hlýnar og hlánar.

Á Austfjörðum snjóar almennt upp úr klukkan níu og fyrr á Suðurfjörðum. Vindur verður minni en víðast hvar annars staðar á landinu en nægur til að skapa stórhríðarástand fram yfir hádegi þegar tekur að lægja og hlýna. Bleytusnjór verður á fjörðum og norður með ströndinni. Hríð verður á fjallvegum fram á kvöld.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar