Mikið tekjutap fyrir Austfirði ef engin loðna finnst
Fyrirtæki í Fjarðabyggð verða af útflutningstekjum upp á tæpa fimm milljarða króna ef ekki veiðist loðna, annað árið í röð. Tekjutap er fyrirsjáanlegt víðar á svæðinu.Þetta kemur fram í hagsjá Landsbanka Íslands. Heildarútflutningsverðmæti loðnu árin 2016-18 nam 18,1 milljarði króna.
Samkvæmt samantektinni fara Vestmannaeyjar verst allra byggðarlaga út úr loðnubresti, fyrirtæki þar verða af 5,8 milljörðum. Fyrirtæki í Fjarðabyggð verða samanlagt af 4,8 milljörðum sem skiptist þannig að í Neskaupstað verða þau af tekjum upp á 2,9 milljarða, 1,6 á Eskifirði og 0,3 á Fáskrúðsfirði.
Reykjavík verður fyrir næst mesta tapinu samkvæmt samantektinni, 3,3 milljörðum. Sú mynd kann að vera nokkuð skökk þar sem tekjur Brims eru skráðar í Reykjavík þótt mestri loðnu fyrirtækisins sé landað á Vopnafirði.
Aflahlutdeild og landanir
Þetta sést þegar skoðaðar eru tölur um afahlutdeild einstakra fyrirtækja og landanir eftir höfnum, sem einnig má finna í samantektinni.
Aflaheimildir í loðnu hafa safnast saman á færri fyrirtæki undanfarin ár með vaxandi sérhæfingu. Þannig hafa fyrirtæki með starfsstöðvar á Austurlandi lagt sig fram um að byggja upp aflaheimildir í loðnu.
Ekkert fyrirtæki má hafa hærra hlutfall en 20%. Ísfélagið í Vestmannaeyjum heggur þó nærri því með 19,99% hlutdeild. Næst stærst er Brim með 18,8% og Síldarvinnslan með 18,8%. Eskja er í fimmta sæti með 8,8% og Loðnuvinnslan Fáskrúðsfirði með 0,3%.
Vestmannaeyjar eru stærsta löndunarhöfnin með 29% aflans en Norðfjörður sú næst stærsta með 22%. Í þriðja sæti birtist síðan Vopnafjörður með 11,5%, Eskifjörður í fjórða með 8,7% og Fáskrúðsfjörður í sjötta með 4,9%.
Reykjavík hverfur hins vegar út úr myndinni, 0,9% aflans er landað þar. Sömu sögu er að segja um Akureyri sem í gegnum Samherja hefur um 9% kvótans en landar engu. Til samanburðar má nefna að 2% aflans er landað á Seyðisfirði, 3,5% á Þórshöfn og 4% í Keflavík. Ekkert þessara byggðarlaga hefur loðnukvóta. Alls hafa 12 fyrirtæki aflahlutdeildir en landað er í 11 höfnum.
Ekki nóg fundist enn
Þar til í fyrra hafði loðna verið veidd á Íslandsmiðum samfellt frá árinu 1963. Loðnuleitin hófst fyrir sléttri viku en seinni partinn í gær komu leitarskipin þrjú, Hákon EA, Polar Amaroq GR og Árni Friðriksson, inn til Ísafjarðar.
Á vef Fiskifrétta er haft eftir Birki Bárðarsyni, leiðangursstjóra, að loðnutorfur hafi fundist á landgrunninu vestur af Kolbeinseyjahrygg, en ekki í það miklu magni að líkur séu á að að kvóti verði gefinn út. Stefnt er að því að skipin fari út aftur á morgun og ljúki við leit út af Vestfjörðum.