Mikið tjón ef loðnubrestur verður annað árið í röð

Framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, segir það áfall ef ekki verður hægt að veiða loðnu í íslenskri lögsögu annað árið í röð. Mikilvægt sé að halda áfram að fylgjast með loðnugöngum þótt ekki sé útlit fyrir að gefinn verði út veiðikvóti á þessari vertíð.

Þriðja umferð loðnuleitar hófst á mánudag og snéru leitarskipin heim úr honum undir hádegi í gær. Börkur NK og Polar Amaroq komu til Norðfjarðar og Aðalsteinn Jónsson til Eskifjarðar.

Alls tóku sex skip þátt í leitinni nú, fimm veiðiskip auk rannsóknarskipsins Árna Friðrikssonar. Það er hið eina sem er enn að en það er að ljúka leit á Húnaflóa.

Í tilkynningu sem Hafrannsóknastofnun sendi frá sér í gærmorgun kemur fram að endanlegar niðurstöður mælinganna liggi ekki fyrir en taldar séu hverfandi líkur á að það sem nú liggur fyrir, um að magn hrygningarloðnu sé minna en í síðustu mælingu, breytist.

Útlit er því fyrir að ekki verði gefinn út veiðikvóti á þessu ár fyrir loðnu, annað árið í röð. „Þetta er mikið tjón og tekjumissir fyrir starfsfólk fyrirtækjanna, sveitarfélögin og aðra. Við getum nefnt netaverkstæði, vélaverkstæði, gististaði og bílaleigur. Áhrifin koma mjög víða fram og reikna má með samdrætti í hagvexti. Þetta er ekki gott ofan í þá niðursveiflu sem þjóðfélagið er að sigla inn í,“ segir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.

Hann segir að hægt hafi verið að komast í gegnum loðnubrestinn í fyrra þar sem viðskiptavinir Síldarvinnslunnar, einkum í Asíu, hafi átt birgðir til að mæta sveiflum sem séu algengar í loðnunni. Staðan nú sé alvarlegri þar sem birgðirnar séu að verða búnar því geti þetta valdið framtíðarskaða á mörkuðum mörkuðum fyrirtækisins.

Leitarleiðangurinn nú var sá þriðji frá áramótum, en áður en hann hófst höfðu talsmenn Hafrannsóknastofnunar gefið það út að hann yrði líklega sá síðasti. Engin ákvörðun liggur enn fyrir um næstu skref en Gunnþór segir mikilvægt að halda áfram að vakta loðnuna.

„Ég reikna ekki með kvóta úr þessu en Hafrannsóknastofnun hlýtur að vakta loðnuna áfram og hvað skilar sér inn til hrygningar. Það væri ábyrgðarlaust að skilja alfarið við þetta núna.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.