Mikill snjór og fljúgandi hálka á Fjarðarheiðinni í nótt
Mikill snjór, fljúgandi hálka og lélegt skyggni var á Fjarðarheiði í nótt að sögn manns sem fór til hjálpar ferðalöngum þar en komst sjálfur í þann krappann. Björgunarsveitir fylgdu ferðalöngum til byggða.„Sonur minn var á ferðinni og festi sig á bakvið annan bíl. Ég fór og ætlaði að draga hann upp en minn bíll fór út af líka. Þetta endaði með því að björgunarsveitin þurfti að koma og ná í okkur alla,“ segir Davíð Kristinsson, íbúi á Seyðisfirði og hótelstjóri á Hótel Öldunni.
Hann segir lítið ferðaveður hafa verið á heiðinni þegar atgangurinn stóð þar yfir milli klukkan eitt og þrjú í nótt.
„Það var fljúgandi hálka, mikill snjór og lítið skyggni. Snjórinn náði upp á miðja felgu á bílnum. Á köflum voru komnir góðir skaflar,“ segir hann um aðstæður.
Davíð segir að bílarnir þrír sem hann og hans fólk hafi verið á hafi verið skildir eftir uppi á heiðinni. Björgunarsveitir sem kallaðar hafi verið út hafi fylgt fleiri ferðalöngum yfir Fjarðarheiðina í nótt.
„Ég hefði viljað hafa heiðina lokaða fyrst hún var ekki þjónustuð lengur en til klukkan tíu. Hún var ekki fær fyrir bíla á einu drifi,“ segir Davíð en kort Vegagerðarinnar frá þessum tíma gefa til kynna að á heiðinni séu hálkublettir.
Af Fjarðarheiði í nótt. Mynd: Davíð Kristinsson