„Mikilvægast að vita hvað skiptir einstaklinginn mestu máli þessa stundina í lífi hans“

Framkvæmdastjóri Institute for Positive Health (IPH) í Hollandi segist vona að innleiðin hugmyndafræði stofnunarinnar um jákvæða heilsu hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) eigi eftir að ganga vel og verða öðrum íslenskum heilbrigðisstofnunum til eftirbreytni. Um leið efli hún samstarf Íslands og Hollands í heilbrigðismálum.

IPH hefur undanfarin ár þróað hugmyndafræðina um jákvæða heilsu sem HSA tekur nú upp í samstarfi við Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað og Seyðisfjarðarkaupstað.

Með hugmyndafræðinni er að vissu leyti snúið við ríkjandi hugsun í heilbrigðisþjónustu sem einblínir oft á skyndilausnir við óþægindum þar sem einstaklingurinn er skilgreindur sem sjúklingur.

Í staðinn er horft á einstaklinginn sjálfan og almenna líðan hans út frá sex meginstoðum: andlegri heilsu, tilgangi í lífinu, daglegri virkni, félagslegri þátttöku lífsgæðum og líkamlegri getu. Út frá þessu mati er einstaklingum vísað á viðeigandi úrræði, sem oft eru hvorki frekari læknismeðferð né lyfjagjöf.

Margir þættir sem skapa heilbrigði

„Eftir að hafa verið yfirmaður heilbrigðisstofnunar þekki ég mikilvægi þess að stjórna eigin heilsu. Ég fann hjá bæði starfsmönnum mínum og skjólstæðingum hvernig ýmsir þættir, svo sem félagslegir, höfðu áhrif.

Jákvæð heilsa snýst um að horfa á lífið í víðu samhengi og hvernig það tengist heilbrigði manneskjunnar. Við þurfum að spyrja hvað skipti mestu máli fyrir manneskjuna á þessum tímapunkti í lífi hennar. Mikilvægast er að allir þessir þættir vinni saman í lífi einstaklingsins. Það þarf þó ekki að vera það sem skiptir lækna og hjúkrunarfræðinga mestu máli,“ sagði Angelique Schuitemaker, framkvæmdastjóri IPH við undirritunina í dag.

Hollendingar læra forvarnir af Íslendingum

Fulltrúar IPH hafa nokkrum sinnum komið hingað til lands og bæði haldið fyrirlestra og námskeið um jákvæða heilsu á vegum Virk, sem segja má að hafi tileinkað sér hana með að horfa á starfsgetu einstaklinga, frekar en þær skerðingar á henni sem þeir hafa orðið fyrir.

Angelique kvaðst í dag vonast til að samningurinn markaði upphafið að frekara samstarfi milli Íslands og Hollands í heilbrigðismálum. Hún sagði Hollendinga líta til þess árangurs sem Íslendingar hefðu náð undanfarin ár í að draga úr vímuefnaneyslu ungmenna með skipulögðu æskulýðsstarfi. Hún hefði hitt hollenskan bæjarstjóra þar sem tilraun hefði verið gerð með íslensku aðferðirnar og þær gefist vel.

Að sama skapi yrði samstarfið um jákvæða heilsu vonandi fyrirmynd annarra íslenskra heilbrigðisumdæma. „Ég held að þetta verkefni geti orðið svipuð fyrir mynd fyrir Íslendinga og forvarnastefna Íslendinga hefur verið Hollendingum fyrirmynd. Ég vona að helst sem fyrst getum við skrifað undir innleiðingu þessa á landinu öllu.

Í Hollandi hafa fyrirtæki tileinkað sér hugmyndafræðina því þau skilja haginn í að tryggja heilbrigði og ánægju starfsfólks síns. Þetta er mögulega eitthvað sem þið getið haft í huga. Við höfum eining verið með verkefni í grunnskólum þar sem nemendur læra snemma að taka ábyrgð á heilbrigði sínu.“

Önnur vinnubrögð en áður

Angelique sagði þó að fara þyrfti hægt af stað í byrjun meðan verið væri að venja fólk við hugmyndafræðina. „Af fenginni reynslu vitum við að þetta snýst um að hvetja, hvetja, hvetja og tengjast fólki með að tala um sýnina. Það verðið þið að gera við fagfólkið ykkar. Þegar þið hafið náð tengslunum ykkar á milli er hægt að gefa í.

Þið verðið að hafa þolinmæði og fara hægt af stað, því þessu fylgja önnur vinnubrögð en fagfólkið hefur vanist.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.