Mikilvægt að staðið sé við það sem lofað er þótt það taki tíma

Fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis segir það hundleiðinlega stöðu á kosningavetri að þurfa að hagræða í ríkisfjármálum og fresta verkefnum en það verði að gera til að ná mikilvægasta markmiðinu sem sé að lækka vexti og verðbólgu. Rétt sé þó að meira fjármagn þurfi til að viðhalda vegakerfinu sem hægt hefur verið að leggja fram.

„Við finnum öll að staða heimilanna hefur þyngst vegna verðbólgu og vaxta. Að ná þeim niður er mesta og stærsta hagsmunamálið. Það þarf að forgangsraða og því höfum við frestað mikilvægum og brýnum verkefnum.

Við sjáum samt að bjartara er framundan. Það hefur hægt á efnahagslífinu án snöggrar kólnunar með atvinnuleysi en við erum enn að glíma við þenslu.

Það hefur verið hagrætt, svo sem með að fresta verkefnum sem ekki eru hafin eða sameina stofnanir eða útvista verkefnum. Það er hundleiðinleg staða og ég er viss um að á kosningavetri væru margir þingmenn til í að bæta í útgjöldin,“ sagði Ingibjörg Ólöf Isaksen, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi í ávarpi sínu á haustþingi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi í dag.

Samgönguverkefni orðin töluvert dýrari


Í ræðu sinni brást Ingibjörg meðal annars orðum Berglindar Hörpu Svavarsdóttur, formanns SSA, sem í setningarræðu sinni lýsti vonbrigðum með að samgönguáætlun hefði ekki verið afgreidd frá Alþingi í vor og að svo virtist sem eitt verkefni, Hornafjarðarfljót, hefði farið fram úr áætlun og sogað til sín fé annarra verkefna.

Í drögum að tillögum þingsins segir að haustþingið leggi áherslu á að ný samgönguáætlun verði afgreidd sem fyrst og hafin verði vinna við næstu jarðgöng á Austurlandi, því aðeins með hringtengingu samgangna verði Austurland að einu atvinnu- og þjónustusvæði.

Ingibjörg, sem situr í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, sagði að fyrir Norðausturkjördæmi hefði verið skynsamlegra og betra að fresta afgreiðslu áætlunarinnar því vantað hefði upp á ákveðnar forsendur hennar, svo sem innheimtu veggjalda.

Hún hafnaði því einnig að umframkostnaður við Hornafjarðarfljót hefði stöðvað önnur verkefni. Vissulega væri þar um að ræða stórt verkefni sem hefði kostað meira en áætlað var en á sama tíma hefði allur kostnaður hækkað. „Innviðaráðherra er núna að uppfæra samgönguáætlun. Það á eftir að koma mörgum á óvart hvað kostnaður við verkefni hefur hækkað. Þið finnið það eflaust í ykkar bæjarsjóðum,“ sagði Ingibjörg.

Hún hélt því að þingmenn kjördæmisins myndu áfram berjast fyrir þeim verkefnum sem þrýst hefur verið á innan Austurlands. Hún sagði að Fjarðarheiðargöng væru fyrst í röð jarðganga enda þau einu sem tilbúin séu til útboðs. Hún sagði að skýr og samstillt rödd Austurlands væri að skila sér. Eins væri mikilvægt að stjórnmálamenn stæðu við þau fyrirheit sem þeir gæfu. „Þetta er allt að koma. Það er mikilvægt að staðið sé við það sem sagt er en það tekur tíma.“

Vill fresta framkvæmdum við flugstöð í Reykjavík


Hún sagði varaflugvallargjald, sem innleitt var 1. nóvember 2023, hjálpa mikið til við uppbyggingu annarra flugvalla en Keflavíkurflugvallar. Samkvæmt drögum að samgönguáætlun á að ráðast í byggingu nýrrar flugstöðvar í Reykjavík. Ingibjörg sagði það sína skoðun að það mætti annað hvort bíða, eða að ný flugstöð yrði byggð af einkaaðilum og leigð af þeim. Í staðinn ætti að ljúka uppbyggingu Akureyrarflugvallar og fara svo í áætlaða uppbyggingu akbrautar á Egilsstaðaflugvelli.

Ingibjörg sagði „brotpunkt“ vera kominn í vegagerðið. Stór hluti þess væri gamall og þyrfti viðhald. Fjármagn til þess hefði verið úr sex milljörðum fyrir 10 árum í 12 milljarða í dag og nú standi til að bæta 1,5 milljarði við. Það dugi hins vegar ekki, 18 milljarða þyrfti. „Það er rétt að við erum komin í innviðaskuld.“

Enn beðið eftir tillögum um veggjöld á einstök samgöngumannvirki


Hún vék einnig að fjármögnun vegakerfisins en til stendur að taka upp kílómetragjald í stað vörugjalda á jarðefnaeldsneyti. Því hefur verið lýst sem landsbyggðarskatti en Ingibjörg sagði tölur sína að fólk í jöðrum höfuðborgarsvæðisins væri það sem keyrði mest. Hún bætti við að gjaldheimtunni hefði þurft að breyta með tilkomu rafbíla.

Kílómetragjaldið byggir á tillögum verkefnastofu fjármálaráðuneytis og innviðaráðuneytis um framtíðargjaldtöku af ökutækjum. Ingibjörg sagði verkefnastofuna hafa farið tveimur árum of seint af stað því enn sé beðið eftir því sem skipti Norðausturkjördæmi mestu, tillögum um veggjöld við sérstakar framkvæmdir. Hún sagði þrýst á fjármálaráðherra að flýta vinnunni eins og kostur væri.

Framkvæmdir við verknámshús VA hefjist áður en kjörtímabilinu lýkur


Ingibjörg ræddi einnig heilbrigðismál, meðal annars að ferðum styrktum af Sjúkratryggingum hefði verið fjölgað um síðustu áramót. Hún sagði þó áfram mikilvægt að samið yrði um komur sérfræðilækna. Hún kvaðst einnig skynja ánægju með 113 milljóna fjárveitingu til heilbrigðisstofnana utan höfuðborgarsvæðisins til eflingar bráðaþjónustu. Ingibjörg kom inn á að í haust væri að fara af stað augnlæknaþjónusta hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands og í Neskaupstað væri komið nýtt tölvusneiðmyndartæki.

Þá sagði hún áfram unnið að undirbúningi viðbyggingar verknámshúss Verkmenntaskóla Austurlands og stefnt á að framkvæmdir hæfust á kjörtímabilinu. „Það styttist óðum og við vitum ekki hvenær það endar en við vonum að framkvæmdin verði komin í fast form fyrir kosningar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.