Skip to main content

Moka þurfti fjallvegi í morgun

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. sep 2024 11:32Uppfært 10. sep 2024 11:34

Hreinsa þurfti krapa af vegunum yfir Fjarðarheiði, Vatnsskarð og Fagradal í morgun. Engin umferðaróhöpp hafa verið tilkynnt í norðanáhlaupi.


„Það var búið að gera ráðstafanir til að fara af stað ef þyrfti,“ segir Sveinn Sveinsson hjá Vegagerðinni á Austurlandi.

Mesta vinnan var á Fjarðarheiði, Vatnsskarði og Fagradal en minna þurfti að gera á Möðrudalsöræfum. Hálka er skráð á Fjarðarheiði og éljagangur og krapi á Mjóafjarðarheiði. Hálkublettir eru á Öxi og Breiðdalsheiði og þæfingur á Hellisheiði. Hálendisvegir eru skráðir ófærir. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu og Vegagerð urðu engin óhöpp í morgun þótt færðin væri vetrarleg miðað við árstíma.

„Við höfum þurft að moka í nánast öllum mánuðum í gegnum tíðina. Við munum að við þurftum að moka þessar leiðir núna í byrjun júní,“ svarar Sveinn þegar hann er spurður að því hvort ástandið sé óeðlilegt miðað við 10. september.

Gul viðvörun er í gildi fyrir Austurland að Glettingi til klukkan níu í kvöld, fyrst og fremst vegna hættu á að færð spillist til fjalla með slyddu. Á Suðausturlandi er viðvörun í gildi fram á nótt vegna hvassviðris. Í Hamarsfirði mældist 24 m/s meðalvindhraði og 35 m/s í hviðum á níunda tímanum í morgun. Þar er enn hvasst þótt heldur hafi lægt.

Mynd: Vegagerðin