Moka þurfti fjallvegi í morgun

Hreinsa þurfti krapa af vegunum yfir Fjarðarheiði, Vatnsskarð og Fagradal í morgun. Engin umferðaróhöpp hafa verið tilkynnt í norðanáhlaupi.

„Það var búið að gera ráðstafanir til að fara af stað ef þyrfti,“ segir Sveinn Sveinsson hjá Vegagerðinni á Austurlandi.

Mesta vinnan var á Fjarðarheiði, Vatnsskarði og Fagradal en minna þurfti að gera á Möðrudalsöræfum. Hálka er skráð á Fjarðarheiði og éljagangur og krapi á Mjóafjarðarheiði. Hálkublettir eru á Öxi og Breiðdalsheiði og þæfingur á Hellisheiði. Hálendisvegir eru skráðir ófærir. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu og Vegagerð urðu engin óhöpp í morgun þótt færðin væri vetrarleg miðað við árstíma.

„Við höfum þurft að moka í nánast öllum mánuðum í gegnum tíðina. Við munum að við þurftum að moka þessar leiðir núna í byrjun júní,“ svarar Sveinn þegar hann er spurður að því hvort ástandið sé óeðlilegt miðað við 10. september.

Gul viðvörun er í gildi fyrir Austurland að Glettingi til klukkan níu í kvöld, fyrst og fremst vegna hættu á að færð spillist til fjalla með slyddu. Á Suðausturlandi er viðvörun í gildi fram á nótt vegna hvassviðris. Í Hamarsfirði mældist 24 m/s meðalvindhraði og 35 m/s í hviðum á níunda tímanum í morgun. Þar er enn hvasst þótt heldur hafi lægt.

Mynd: Vegagerðin

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.