Mokstur að hefjast á Fagradal

Óveðrið sem gekk yfir landið í nótt og í dag virðist gengið niður á Austurlandi. Mokstur er að hefjast á nokkrum leiðum en hæstu fjallvegir verða lokaðir í nótt. Von er á nýrri lægð um miðjan dag á morgun.

Vegurinn milli Breiðdalsvíkur og Djúpavogs var opnaður upp úr klukkan tvö í dag og áfram suður til Hafnar skömmu síðar, en þeim var lokað snemma í morgun.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er mokstur að hefjast á Fagradal og svo frá Egilsstöðum inn í Hallormsstað, út í Eiða og um Heiðarenda. 

Farið verður til að moka aðrar leiðir snemma í fyrramálið en vegirnir yfir Vopnafjarðarheiði, Vatnsskarð, Möðrudalsöræfi og Fjarðarheiði verða lokaðir í nótt. Enn er nokkuð hvasst á fjallvegum og snjókoma.

Á láglendi umbreyttist úrkoman í rigningu þegar tók að hlýna upp úr klukkan tvö. Um leið fór að lægja og um klukkan fjögur var komið hið ágætasta skyggni víða.

Þó nokkuð hefur snjóað á Austurlandi í morgun og milli klukkan 11-14 var mjög vont veður, mikil úrkoma, vindur og mjög blint. Víða varð þungfært innanbæjar.

En þótt að Valentínusardagsóveðrið sé gengið niður eru Austfirðingar ekki sloppnir. Ný lægð er væntanleg upp að landinu á morgun á frá klukkan 13-17 er spáð austan 15-20 m/s í fjórðungnum. Búist er við að sá vindur komi aðeins öðruvísi á svæðið og standi þá meðal annars inn bæði Eskifjörð og Fáskrúðsfjörð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.