Nauðsynlegt að skoða almannavarnir á landsvísu
Formaður Slysavanafélagsins Landsbjargar segir að almannavarna megi ekki vera undir styrk einstakra lögregluumdæma eða sveitarfélaga komnar, heldur verði að horfa á þær heildstætt. Björgunarsveitir gegna þar lykilhlutverki. Ekki verði hægt að kippa fótum undan tekjuöflun þeirra með sölu flugelda án þess að eitthvað annað komi í stað.Þetta var meðal þess sem fram kom í ræðu formannsins, Smára Sigurðssonar, við setningu þings Landsbjargar á Egilsstöðum í dag.
Smári ræddi sérstaklega varnir gegn hópslysum eða náttúruvá sem hann taldi að taka yrði til endurskoðunar á landsvísu.
„Það er í höndum sveitarfélaga að gera viðbragðsáætlanir. Að framvindan ráðist af áhuga eða getu einstakra lögregluumdæma eða sveitarfélaga er ekki vænlegt, jafnvel að á einstaka landssvæðum séu flest ljós slökkt þegar kemur að málaflokknum.
Landsbjörg hefur talað fyrir vitundarvakningu, að þessi mál verði unnin á heildstæðan hátt en ekki að einstök umdæmi geri vel og önnur minna. Við sem þjóð þurfum að vera undir þá vá sem skapast getur búin. Í almannavarnarmálum skortir tilfinnanlega samhljóm og kraft um utanumhaldið um land allt,“ sagði Smári.
Orð Smára koma í kjölfar alvarlegs rútuslyss í Öræfasveit í gær. „Það minnir á hve mikilvægt er að hafa skipulag, áætlun og æfa það og hafa samheldið viðbragðslið. Sunnlendingar eiga hrós skilið, þar hefur þetta verið gert mjög vel, en þetta þarf líka að gerast á landsvísu.“
Stefnuleysi um viðbragðshópa
Smári kom einnig inn á þjónustu sem björgunarsveitirnar við aðhlynningu þeirra sem slasast eða veikjast alvarlega utan vega. „Stefna heilbrigðisyfirvalda hefur verið að fækka en stækka sjúkralið og fylla í holurnar með viðbragðsaðilum.
Forsvarsmenn Landsbjargar hafa margþrýst á skilgreint verði hvernig menn ætla að hafa þessi mál til framtíðar því málaflokkurinn hefur verið í hálfgerðu stefnuleysi.“
Selja flugelda meðan aðrar tekjuleiðir eru ekki tryggar
Smári ræddi fjármál björgunarsveitanna, sem áratugum saman hafa reitt sig á sölu flugelda til að fjármagna starfsemi sína. Í máli Smára kom fram að nettótekjur af sölunni væri 700-800 milljónir á ári, en heildarvelta björgunarsveitanna á landsvísu 1,5 milljarður. Blikur eru á lofti í flugeldasölunni.
„Sala flugelda hefur verið mikilvægasta fjáröflum björgunarsveita í þéttbýli í 50 ár. Það er hins vegar ljóst af samtölum við ráðuneyti heilbrigðis- og umhverfismála að þeirra sýn á flugelda er ekki björt. Yfirvöld vita hins vegar að sala flugelda er meginstoðin í að fjármagna aðkomu okkar að almannavarnakerfinu, sem er býsna stór. Við værum löngu hætt í þessum flugeldum ef aðrar sambærilegar lausnir væru sýnilegar, eða í boði. Á meðan höldum við ótrauð áfram.
Stjórnvöld viðurkenna að viðbragðskerfið verður ekki hið sama ef ekki finnast viðunandi úrræði til reksturs björgunarsveita án sölu flugelda. Að ekki verði boð og bönn án mótvægisaðgerða.“
Stærsti kostnaðurinn við að vera til
Þá skýrði Smári frá því að á vegum Landsbjargar sé unnið að því að taka saman hve mikið björgunarsveitir greiði í opinbergjöld. „Af hverjum lítra af bensíni sem harðbotna bátarnir okkar brenna fara 100 krónur til ríkisins. Flestir bílarnir okkar mega keyra á litaðri olíu, af henni fara 12,9 krónur til ríkisins. Þar fyrir utan er virðisaukaskatt og önnur opinber gjöld. Það kæmi mér ekki á óvart að það sem við greiðum til ríkisins sé svipað og hið beina framlag sem félagið fær frá ríkinu.
Stærsti kostnaðurinn felst í að vera til. Eiga mannskap, búnað og kunna að nota hann þegar kallið kemur. Eitt útkall skiptir ekki svo miklu máli. Það er jafn misjafnlega að sveitunum og þær eru margar. Sums staðar hafa sveitarfélög staðið mjög vel með þeim til að tryggja öryggi íbúa og gesta, annars staðar er málum háttað á annan hátt,“ sagði Smári.
Þingfulltrúar mála bæinn rauðan
Áætlað er að um 600 manns leggi leið sína í Egilsstaði í tengslum við þingið sem haldið er í íþróttahúsinu. Þingfulltrúar með atkvæðisrétt eru á þriðja hundrað, en við bætast fulltrúar úr björgunarsveitum sem taka þátt í þingstörfum auk björgunarleika sem haldnir verða á morgun. Því er von á að rauðklætt björgunarsveitafólk setji svip sinn á bæinn um helgina.
Þetta er í fyrsta sem þingið, sem fer fram annað hvert ár, er haldið á Egilsstöðum en Smári sagði í ræðu sinni að með auknu gistirými hefðu opnast möguleikar að halda þingið víðar en áður. Á meðal þingmála eru nýjar siðareglur Landsbjargar og tillögur að nýju svæðisstjórnarskipulag, sem hefur verið óbreytt frá árinu 1986.
„Við þurfum áfram á öllum okkar aðgerðarstjórum að halda áfram. Vettvangur eða aðgerð verður ekki flutt en tæknin þýðir að utanumhaldið getur verið á öðrum stað en verið hefur,“ sagði Smári.
Þá er ljóst að kosinn verður nýr formaður á morgun þar sem Smári gefur ekki kost á sér til endurkjörs. Hann hefur verið formaður frá árinu 2015. Þrír eru í framboði.