Nei eða já 26. október

Samstarfsnefnd um sameiningu fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi hefur lagt til að kosið verði um sameininguna í lok október. Mikil vinna hefur verið lögð í að greina framtíðarhorfur nýs sveitarfélags í fjármálum.

Samstarfsnefnd um sameiningu Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs, Borgarfjarðarhrepps og Seyðisfjarðarkaupstaðar vísaði á fundi sínum fyrir helgi áliti sínu um að kosið verði um sameininguna þann 26. október til umfjöllunar í sveitarstjórnunum.

„Fljótlega eftir að samstarfsnefndin var skipuð síðasta haust samþykktu sveitastjórnirnar að ferlið yrði formlegt og því lýkur ekki öðruvísi en að íbúarnir kjósi. Það hefur verið stefnt að því að kjósa á þessu ári. Þetta verður bara já eða nei 26. október,“ segir Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs og formaður samstarfsnefndarinnar.

Málefnanefndir hafa starfað í vetur og í mars var vinna þeirra kynnt íbúum á fundum. Samstarfsnefndin hefur síðan unnið tillögurnar frekar og nú vísað þeim til sveitastjórnanna. Þær taka tillögurnar fyrir á tveimur fundum og geta komið fram með athugasemdir. Það á að klárast nú í júní áður en samstarfsnefndin kemur saman næst 2. júlí.

Meðal þess sem sveitastjórnirnar geta gert athugasemdir við er dagsetning kosningarinnar. Eins þarf að ræða hvort rétt sé að samstarfsnefndin kynni tillögur sínar fyrir íbúum með nýjum íbúafundum áður en kosið verður. Slíkt yrði líklega gert um mánaðarmótin ágúst/september, að sögn Björns.

Heimastjórnir standast lög

Tillögur nefndarinnar verða ekki gerðar opinberar fyrr en sveitastjórnirnar hafa hafið umfjöllun um þær, sem verður með bæjarstjórnarfundi Fljótsdalshéraðs á miðvikudag. Tillögurnar fela í sér hugmyndafræði nýs sveitarfélags sem byggir að mestu á þeim hugmyndum sem ræddar voru á íbúafundunum.

„Það er gegnumgangandi tónn að haldið verði í ákveðið vægi nærsamfélagsins, að halda í sérstöðu hvers kjarna og þar með verðmæti hans,“ segir Björn.

Þungamiðjan í því eru svokallaðar heimastjórnir í hverju núverandi sveitarfélagi. Rætt hefur verið um þriggja manna nefndir sem fulltrúar byggðarinnar verði kosnir óhlutbundinni kosningu. Þar eru allir í kjöri og íbúar rita á blað nöfn þeirra sem þeir kjósa. Búið er að skoða hvort þær hugmyndir standist lög. „Niðurstaðan er að þær standist gildandi lög og reglugerð,“ segir Björn.

Framkvæmdaþörf metin

Hann segir að í tillögunum sé einnig að finna hugmyndir um að efla og útvíkka þjónustu sameinaðs sveitarfélags. „Það er horft til þess að það verði öflugt í þjónustu við íbúa og að til verði öflugt samfélag.“

Þá var á síðasta fundi samstarfsnefndarinnar farið yfir forsendur 10 ára fjárhags- og fjármálaáætlunar sameinaðs sveitarfélags. „Það hefur verið lögð mikil vinna í fjárhagslegar forsendur sameinaðs sveitarfélag. Við höfum bæði metið þær út frá gildandi fjárhagsáætlun hvers sveitarfélags en líka þess sem ekki hefur ratað inn í þær, svo sem þörf á viðhaldi og fjárfestingum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.