Níu tíma sjúkraútkall á Fjarðarheiði

Björgunarsveitarmenn frá Seyðisfirði og Fljótsdalshéraði hafa síðan á þriðja tímanum í dag unnið að því að koma sjúklingi frá Seyðisfirði undir læknishendur á Héraði. Björgunarsveitarmenn segja aðstæður á heiðinni afleitar.

Útkallið barst klukkan 14:17 í dag og komst sjúklingurinn í bíla sem komu frá Héraði sex tímum síðar. Björgunarsveitin Ísólfur á Seyðisfirði og Hérað mættust þá við Gufufoss.

Þegar Austurfrétt ræddi við Guðna Sigmundsson í aðgerðastjórn klukkan 22:15 í kvöld voru bílarnir komnir að Norðurbrún Fjarðarheiðar. Skyggni er slæmt en vonast er að bílarnir verði komnir í Egilsstaði um klukkan ellefu. Björgunarsveitarmenn á Seyðisfirði eru komnir í hús.

Guðni segist ekki muna eftir svona löngu sjúkraútkalli á Seyðisfirði. Það lengsta til þessa hafi tekið átta tíma en þá þurfti að koma sjúklingi yfir á Norðfjörð.

Ekki er um bráðatilfelli að ræða en læknir á Seyðisfirði mat stöðuna þannig að sjúklingurinn þyrfti frekari aðstoðar við sem fyrst og var því ákveðið að ráðast á Fjarðarheiðina.

Frá Egilsstöðum komu tveir snjóbílar auk Landcruiser-jeppa. Aðstæður á Fjarðarheiði eru afleitar. Þar er mikill snjór og þungur. Ekki bætir úr skák að undirlagið er mishart og skyggnið ekkert. Guðni segir að Seyðisfjarðarmegin við Heiðarvatn sé gríðarlega mikill snjór. Verst sé ástandið hins vegar í Stöfunum, einkum ofarlega í þeim efri.

Annar snjóbílanna lenti í vanda á leiðinni er hann festist og tafði það ferðina að þurfa að ryðja frá honum til að geta haldið áfram. Til að liðka fyrir ferðinni var farið upp í Stafdal og náð í snjótroðara skíðasvæðisins sem tróð för fyrir farartækin.

Davíð Kristinsson, varaformaður Ísólfs, segist ánægður með samstarf sveitanna á Héraði og Seyðisfirði. „Þetta er búið að vera mikið basl. Ég þakka fyrir hvað er gott samstarf milli deildanna. Það er lífsnauðsynlegt að geta fengið hjálp við svona aðstæður og geta stólað á hana,“ segir. „Þetta er mannskapur sem klikkar ekki,“ segir Guðni.

Vegurinn yfir Fjarðarheiði hefur verið lokaður frá því klukkan tíu í gærmorgunn. Óvissuástandi vegna snjóflóðahættu var lýst yfir seinni partinn í gær og ekki aflétt fyrr en eftir hádegi í dag. Seyðfirðingar hafa árum saman barist fyrir göngum undir Fjarðarheiði og bent á að þau skipti sköpum fyrir öryggi íbúa þar.„Þetta er ekki boðlegt. Sem betur fer var þetta ekki bráðatilfelli, þess vegna sleppur þetta fyrir horn,“ segir Davíð.

Frá aðgerðum á Fjarðarheiði, úr safni. Mynd: Nikulás Bragason


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.