„Nokkrir hafa þegar bókað sér gistingu fyrir næstu Bræðslu“

„Helgin gekk  alveg svakalega vel, við erum öll mjög ánægð með hvernig til tókst og höfum ekki heyrt neitt annað en gleði og meiri gleði,“ segir Bræðslustjórinn Áskell Heiðar Ásgeirsson um nýliðna helgi. Aukin löggæsla var á vegum í kringum Borgarfjörð og Egilsstaði um helgina, sem og á Bræðslusvæðinu sjálfu. 



Einmuna blíða var á Borgarfirði um helgina. „Það tók sig upp gamalt Bræðsluveður sem við héldum að við værum búin að týna. Það var alveg æðislegt að svona  skyldi rætast úr þessu, auðvitað hefur verið blíða hér meira og minna í allt sumar, en það er alls ekki sjálfgefið að fá hana einmitt þessa helgi,“ segir Áskell Heiðar, en hann telur að allt að 2500 manns hafi verið á Borgarfirði þegar mest lét á laugardaginn.

„Við erum alltaf með svipaðan gestafjölda og erum alls ekki að reyna að fjölga hjá okkur. Það var svipaður fjöldi á Bræðslutónleikunum sjálfum og árið 2008, eða rétt innan við 1000 manns. Auðvitað kallaði veðrið um helgina á að fólk kom og kíkti á stemmninguna þó svo það færi ekki á tónleikana,“ segir Áskell Heiðar sem strax er farinn að huga að næsta ári.

„Nokkrir hafa þegar bókað sér gistingu fyrir næstu Bræðslu - kvöddu með þeim orðum að við myndum sjást að ári. Aðrir hafa svo lagt inn pöntun fyrir tónleikamiðum þannig að við verðum sennilega að fara að huga að næstu tónleikum sem fyrst.“

Ánægja með herta löggæslu
Austurfrétt sagði frá hertu umferðareftirliti síðastliðna helgi, en auk Bræðslunnar voru Franskir dagar haldnir á Fáskrúðsfirði. „Þetta er það sem maður er alltaf helst uggandi við varðandi hátíðina, hvernig gestum tekst að komast til okkar og aftur til baka, en vegurinn er ekki allra og vissara að hafa öll skilningarvit í lagi þegar hann er farinn. Við vorum því mjög ánægð með þetta herta eftirlit, sem og hvað lögreglan var sýnlileg á hátíðinni hjá okkur. Við höfum ekki heyrt neitt annað frá lögreglu eða björgunarsveitum en að allt hafi farið vel fram,“ segir Áskell Heiðar.

25 teknir fyrir of hraðan aksutur en enginn fyrir ölvunarakstur
Hjalti Axelsson, lögregluvarðstjóri á Egilsstöðum segir helgina á því svæðinu kringum Egilsstaði og Borgarfjörð almennt hafa gengið mjög vel. „Við jukum umferðaeftirlit og almennt eftirlit á Borgarfirði yfir daginn frá því sem verið hefur. Ástæða þess að við gátum það er sú að við erum betur mönnuð núna en síðastliðin sumur og sjáum okkur því fært að vera meira á ferðinni.

Alls voru 25 teknir fyrir of hraðan akstur á svæðinu, en fleira fólki fylgir aukinn ökuhraði og er þetta ekkert sem getur talist óeðlilegt. Enginn ökumaður var tekinn fyrir ölvunarakstur, en alls blésu um 300 manns í áfengismæla hjá okkur áður en þeir héldu heim frá Borgarfirði. Það var almenn ánægja með það og sumir komu oftar en einu sinni, þar til þeir fengu grænt ljós á að halda af stað.“

Ljósmynd: Aldís Fjóla Borgfjörð Ásgeirsdóttir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.