Ný tilraun við Egilsstaðaflug ekki á dagskrá Condor

Þýska flugfélagið Condor, sem fyrir sumarið 2023 hafði boðað beint flug milli Egilsstaða og Frankfurt, hefur engar fyrirætlanir um að gera aðra slíka tilraun á næsta ári.

Þetta kemur fram í svari talsmanns félagsins við fyrirspurn Austurfréttar. Orðrétt segir að sem stendur séu engin áform um beint flug til Íslands séu í nýrri flugáætlun félagsins.

Í júlí 2022 var tilkynnt um að Condor, sem er eitt stærsta flugfélag Þýskalands, ætlaði að hefja reglubundið flug til Egilsstaða og Akureyrar frá maí og fram í október sumarið 2023.

Í lok mars 2023 var hins vegar tilkynnt að Condor væri hætt við. Sú skýring var meðal annars gefin að erfitt hefði reynst að selja flugið til sérstaklega ferðaskrifstofa þar sem gistipláss á Austurlandi væri svo til uppbókað yfir sumarmánuðina. Skammur aðdragandi hefði einnig haft áhrif.

Samstarfsaðilar Condor hérlendis bundu þó vonir við að önnur tilraun yrði gerð síðar og flugfélagið útilokaði það ekki enda væri um að ræða spenandi áfangastaði sem ættu mikið inni á þýskum markaði. Þær vonir rættust ekki í ár og nú er ljóst að ekkert verður heldur af þeim að ári.


 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar