Nýjar snjóflóðavarnakeilur ofan Neskaupstaðar farnar að virka

Framkvæmdir við snjóflóðavarnir undir Nes- og Bakkagiljum ofan Neskaupstaðar, sem hófust í haust, miðar vel. Tvær fyrstu keilurnar eru farnar að veita vernd þótt þær séu ekki fullbyggðar.

„Við erum byrjaðir á vörnum á því svæði sem snjóflóðin féllu árið 2023. Þar eru tvær keilur langt komnar og við höldum áfram í þeim í vetur eftir því sem veður leyfir,“ segir Viðar Hauksson, verkstjóri Héraðsverks á staðnum.

Keilurnar eru 30 metrar breiðar neðst og 10 metra efst. Þær hafa náð sjö metra hæð en eiga að ná upp í níu metra. Þær standa beint ofan við fjölbýlishúsin við Starmýri sem urðu verst úti í snjóflóðunum í mars 2023.

Síðasti vinnudagur Héraðsverks á staðnum var 20. desember síðastliðinn. Viðar segir að byrjað verði þegar veður leyfi. Reynslan segir að það verði vart fyrr en í febrúar því janúar reynist yfirleitt erfiður.

Verkið hefur gengið vel og eina hléið á vinnunni orðið um mánaðamótin nóvember/desember eða í „kosningaveðrinu“ þegar snjóaði mikið í Neskaupstað. Verkið er heldur á undan áætlun en verktakinn fullnýtti til framkvæmda það fjármagn sem var til ráðstöfunar árið 2024.

Beðið er eftir staðfestingu á nákvæmlega hve mikið fjármagn sé til framkvæmda í ár en Héraðsverk hefur lag fram sínar áætlanir um hvað hægt sé að gera á árinu. Áætlað er að byrja á hinum eiginlegu varnargörðum í apríl.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.