Nýtt athafnasvæði Djúpavogs í Gleði- eða Sandbrekkuvík?

Það kemur í hlut heimastjórnar Djúpavogs á næsta fundi sínum þann 10. október að gefa sitt mat á því hvort Innri-Gleðivík eða Sandbrekkuvík sé heppilegri staðsetning fyrir athafna- og hafnarsvæði bæjarins til framtíðar.

Fyrirhugaðar hafa verið aðalskipulagsbreytingar á Djúpavogi um tíma og töluverð vinna þegar farið fram þess vegna af hálfu Múlaþings.

Í frumdrögum var gert ráð fyrir að helsta athafna- og hafnarsvæðið yrði í Innri-Gleðivík en vegna athugasemda íbúa á svæðinu hefur verið ákveðið að skoða hvort Sandbrekkuvík sé hugsanlega betri kostur til langs tíma.

Í athugasemdum bæjarbúa kemur meðal annars fram að líklegt sé að hávaðamengun frá skipaumferð geti aukist ef Innri-Gleðivík verður fyrir valinu enda gert ráð fyrir aukinni umferð töluvert stórra skipa innan við hundrað metra frá íbúabyggð. Þar einnig bent á að svæðið við Innri-Gleðivík sé ekki ýkja stórt þannig að stækkun þess svæðis ef til þarf í framtíðinni er næsta ómöguleg.

Aðspurður segir Eiður Ragnarsson, fulltrúi sveitarstjóra á Djúpavogi, að það séu ýmsir á þeirri skoðun að athafnasvæði við Innri-Gleðivík sé miður heppileg til lengri tíma litið.

„Þetta er auðvitað allt í sínu ferli en það er jákvætt að mínu mati að umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings hafi tekið tillit til þeirra athugasemda sem fram komu í vetur. Það kann vel að vera að Sandbrekkuvíkin sé heppilegri en Gleðivíkin ef umsvif við höfnina aukast mikið frá því sem nú er en á móti kemur að á þeim stað er ekkert, engar mælingar eða rannsóknir farið fram svo að menn þyrftu að byrja frá grunni nánast ef skoða á þann stað af alvöru. En ekki þar fyrir að hálft ár aukalega skipti máli í stóra samhenginu ef vandað er til verka.“

Aðspurður um hvort heimastjórnin hafi einhver gögn að styðjast við við ákvörðunartöku sína segir Eiður að fyrir liggi ein skýrsla frá ráðgjafafyrirtæki sem meti kosti og galla beggja svæða. Það plagg góðra gjalda vert en þær upplýsingar byggja þó ekki á neinum eiginlegum rannsóknum.

Fyrir sitt leyti ætlar umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings ekki að taka afstöðu fyrr en heimastjórnin hefur gefið álit sitt í næsta mánuði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar