Nýtt sveitarfélag verður formlega til 3. maí
Sameining Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar í eitt sveitarfélag mun taka formlega gildi sunnudaginn 3. maí.Þetta kemur fram í tilkynningu frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu en ráðherra staðfesti sameininguna í dag. Íbúar samþykktu hana með öruggum meirihluta í öllum gömlu sveitarfélögnum fjórum þann 26. október síðastliðinn.
Í auglýsingu um staðfestinguna er boðað til sveitarstjórnarkosninga fyrir hið nýja sveitarfélag 18. apríl. Nýkjörin sveitarstjórn tekur við 15 dögum síðar, þann 3. maí. Um leið tekur sameiningin gildi og nýtt sveitarfélag tekur við eignum, skuldum, réttindum og skyldum þeirra gömlu.
Kosnir verða ellefu fulltrúar í sveitarstjórnir auk átta fulltrúa og átta til vara í fjórar heimastjórnir hins nýja sveitarfélags.
Áður þurfa sveitarstjórnir gömlu sveitarfélaganna fjögurra að kjósa sameiginlega þrjá fulltrúa í yfirkjörstjórn og þrjá til vara. Kjörstjórnir sem kosnar voru í upphafi yfirstandandi kjörtímabils, eftir sveitarstjórnarkosningar vorið 2018, verða undirkjörstjórnir við kosningar, nema annað verði ákveðið.
Samstarfsnefnd á vegum sveitarfélaganna fjögurra vinnur að gerð samþykkta um stjórn, stjórnsýslu og fundarsköp hins nýja sveitarfélaga. Þá stendur til að halda leiðbeinandi kosningu um nafn hins nýja sveitarfélags samhliða sveitarstjórnarkosningunni í vor.