Óánægja Fljótsdælinga að fá ekki stjórnarmann í Samtökum orkusveitarfélaga

Ný fimm manna aðalstjórn Samtaka orkusveitarfélaga var kosin á aðalfundi samtakanna fyrr í mánuðinum en engir úr Fljótsdalshreppi hlutu náð fyrir augum þátttakenda.

Lét sveitarstjórn Fljótsdalshrepps bóka sérstök vonbrigði með þessa niðurstöðu á síðasta sveitarstjórnarfundi enda sé langstærsta vatnsorkuver landsins, Fljótsdalsvirkjun, staðsett í hreppnum. Enginn var heldur kosinn á sínum tíma í fráfarandi stjórn úr röðum Fljótsdælinga en einn varamaður nýrrar stjórnar, Kjartan Benediktsson, er þó úr hreppnum.

Austurland á þó áfram einn fulltrúa í stjórn samtakanna sem er Jónína Brynjólfsdóttir frá Múlaþingi en formaður að þessu sinni var kosin Ása Valdís Árnadóttir frá Grímsnes- og Grafningshreppi.

Þrjú ný sveitarfélög fengu aðild að þessu sinni; Reykhólahreppur, Skorradalshreppur og Kjósarhreppur en með þeim er fjöldi sveitarfélaga með aðild alls 23 talsins.

Fljótsdalsstöð framleiðir mesta orku allra vatnsaflsvirkjana í landinu en Fljótsdælingar fá þó ekki sæti í stjórn Samtaka orkusamtaka. Mynd Landsvirkjun

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.