Óbyggðasetrið og Gistihúsið á Egilsstöðum hlutu viðurkenningar

Austurbrú veitti í síðustu viku tvær viðurkenningar á málstofu ferðaþjónustunnar á Austurlandi sem fram fór í Végarði, Fljótsdal undir yfirskriftinni „Þekkir þú þína mjólkurkú?“.



Annars vegar fékk Óbyggðasetur Íslands viðurkenningu fyrir frumkvöðlastarf í ferðaþjónustu eystra og sagði Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, við þetta tækifæri að öllum ætti að vera ljóst hversu „gríðarlega metnaðarfullt og frumlegt verkefni Óbyggðasetrið væri.“ Þá fékk Gistihúsið á Egilsstöðum viðurkenningu sem „fyrirmyndarfyrirtæki í ferðaþjónustu“. Fagmennska hefur ætíð verið í fyrirrúmi hjá Gistihúsinu og þá hefur sókn í uppbyggingu fyrirtækisins verið áberandi á síðustu misserum og einstaklega athyglivert og gaman að fylgjast með vexti þess. Er það von Austurbrúar að þessar viðurkenningar virki sem hvatning fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu til að gera enn betur.


Erindi sem snertu á rekstri og umhverfi ferðaþjónustu

Það voru Austurbrú og Ferðamálasamtök Austurlands sem boðuðu til fundarins sem um fimmtíu manns sóttu. Þar voru flutt ýmis erindi er snertu á rekstri og umhverfi ferðaþjónustunnar. Meðal annars var sagt frá könnun um stöðu og horfur í ferðaþjónustu á landinu þar sem ferðaþjónar voru spurðir um ýmsa þætti í sínum rekstri og rekstrarumhverfi. Sævar Kristinsson, sérfræðingur hjá KPMG, hélt erindi er kallaðist „Framtíð ferðaþjónustunnar á Íslandi til ársins 2030“. María Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, fjallaði um verkefnið „Áfangastaðurinn Austurland“ og sagði frá helstu áföngum þess verkefnis undanfarið og markmiðum næsta árs. Magnús Guðjónsson hjá Ambassador Whale Watching á Akureyri sagði frá sögu fyrirtækisins, hvernig það varð til og helstu áskorunum í stofnun fyrirtækis.


Þátttakendur fengu síðan tækifæri til að hitta og ræða við fyrirlesara auk þess sem fulltrúar frá Arion-banka, Austurbrú, SSA, Deloitte, Ferðamálasamtökum Austurlands, Vinnueftirlitinu o.fl. buðu fram aðstoð og ráðgjöf til ferðaþjóna enda að mörgu að huga þegar kemur að rekstri slíkra fyrirtækja.

 

Mynd: F.v. Arna Björg Bjarnadóttir frá Óbyggðasetrinu, Jóna Árný Þórðardóttir hjá Austurbrú og Þórhallur Jóhannsson frá Gistihúsi Egilsstaða.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar