Oddvitaskipti í Fljótsdalshreppi
Nýr oddviti var óvænt kjörinn á fundi sveitarstjórnar Fljótsdalshrepps sem haldinn var í gær. Fráfarandi oddviti, Gunnþórunn Ingólfsdóttir, hafði gegnt embættinu óslitið frá árinu 2002.
Í hennar stað var kjörinn Jóhann Frímann Þórhallsson, bóndi í Brekkugerði. Jóhann var kjörinn á ný í sveitarstjórn 2018 en hafði setið í sveitarstjórn áður auk þess að hafa setið í nefndum á vegum sveitarfélagsins.
Austurfrétt hafði samband við bæði Jóhann og Gunnþórunni en hvorugt þeirra vildi tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.
Anna Jóna Árnmarsdóttir, sem situr í sveitastjórn Fljótsdalshrepps, bar upp vantrauststillögu á fráfarandi oddvita sem var samþykkt og kosinn var nýr oddviti.
Samkvæmt heimildum Austurfréttar komu oddvitaskiptin Fljótsdælingum nokkuð á óvart en þó kom fram í máli sumra að gætt hefði undirliggjandi spennu innan sveitarstjórnar um nokkra hríð.
Sveitarstjórnarfundir eru lögum samkvæmt opnir gestum sem vilja fylgjast með. Fundinn sat meðal annarra Þorvarður Ingimarsson. Hann segir að tekist hafi verið á um mál sem fráfarandi oddviti vildi keyra í gegn án stuðnings sveitarstjórnar og íbúa.
„Undir var stórt mál sem sitjandi oddviti vildi verja miklum fjármunum í. Það er bygging skemmu sem á að kosta sveitafélagið 90 milljónir króna.
Það var ekki vel undirbúið mál af hennar hálfu og í raun margítrekað óskað eftir að könnun færi fram um hver þörfin væri á byggingunni. Það var bara ekki búið að sýna fram á hver þörfin væri fyrir hana,“ sagði Þorvarður.
Hann segir að hluti byggingarinnar hafi átt að fara undir búnaðarfélagið og hýsa vinnutæki og fleira. „Það var bara aldrei búið að ræða við búnaðarfélagið um það. Þarna vildi oddviti keyra áfram mál sem hún hafði ekki stuðning fyrir. Það hefur verið að fjallað um þetta á tveimur íbúafundum og í sveitastjórn en hún stóð ein með þessari hugmynd.“
Þorvarður telur oddvitaskiptin hafa verið rökrétt framhald miðað við hvernig oddviti hélt á málinu og öðrum málum líka.
„Hún vildi greinlega ekki fara að vilja íbúa og sveitarstjórnar og ætlaði ekki falla frá sinni stefnu í þessu máli. Þetta mál og afstaða hennar í því var eiginlega kornið sem fyllti mælinn.“ segir Þorvarður.
Auk þess að vera oddviti hefur Gunnþórunn jafnframt gegnt stöðu sveitarstjóra. Ekki hafa fengist upplýsigar um hvernig þeim málum verður háttað eftir kjör nýs oddvita.