Öll börn á Djúpavogi fá inni í leikskólanum frá áramótum

Sökum plássleysis í byrjun skólaársins í leikskólanum Bjarkatúni tókst ekki að veita þremur börnum á Djúpavogi leikskólapláss en með samhentu átaki hefur tekist að skapa rúm fyrir öll þrjú börnin frá og með næstu áramótum. Skólinn verður fullsetinn allt næsta ár.

Foreldrar þeirra þriggja barna sem ekki tókst að koma að í skólabyrjun fengu bréf þessa efnis fyrir stuttu en þau hafa á móti fengið fjárframlag frá Múlaþingi. Biðin verður þó ekki lengri en til áramóta að sögn Guðrúnar Sigríðar Sigurðardóttur, leikskólastjóra á Bjarkatúni.

Skólinn er fyrir allnokkru orðinn sprunginn eins og Austurfrétt hefur greint frá. Ástæðurnar nokkrar, þar á meðal fjölgun barnafjölskyldna á svæðinu en ekki síður nýjar reglur Kennarasambands Íslands um aukið lágmarksrými í skólum fyrir bæði kennara og nemendur.

Fjölskylduráð Múlaþings kom af þessu tilefni síðasta vetur á fót sérstökum starfshópi til að finna lausnir á vandamálinu. Hópurinn skilaði af sér tillögum með haustinu og þar lagt til að byrjað verði á viðbyggingu við leikskólann. Þar allra fyrst ljúka þarfagreiningu og hönnun og í kjölfarið sækja um styrk til verksins í Fiskeldissjóð. Fáist ekki fjármagn þaðan fari viðbygging beint á fjárfestingaráætlun Múlaþings og stefnt að því að verkinu verði lokið eigi síðar en haustið 2027.

Ný viðbygging er einmitt það sem leikskólastjórinn hefur lengi séð sem einu færu leiðina til framtíðar enda atvinnutækifærin mörg á Djúpavogi og nokkuð ljóst að þar muni áfram fjölga íbúum næstu árin.

„,Hér er almennt mikill uppgangur og ekkert sem bendir til annars en svo verði áfram þannig að skyndilausnir er kannski ekki málið. En auðvitað snýst þetta um fjármagn og við getum ekki heimtað forgang umfram aðra skóla sveitarfélagsins. En það vissulega gleðilegt að geta tekið móti þeim þremur börnum sem ekki komust inn núna um áramótin en þó skal halda til haga að þau eru öll fædd eftir 1. september en viðmiðið hingað til hefur verið að koma að börnum sem fædd eru fyrir þann tíma. Til lengri tíma litið sýnist mér skólinn verða fullsetinn allt næsta ár og hugsanlega eitthvað lengur.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar