Óttast að útfærsla kílómetragjalds komi niður á íbúum og fyrirtækjum á Austurlandi

Samband sveitarfélaga á Austurlandi lýsir áhyggjum að ekki sé búið að kanna nægilega vel áhrif og útfærslu á breyttri gjaldheimtu af umferð með upptöku kílómetragjalds á næsta ári. Gagnrýnir beinist einkum að álagi á þyngri bíla sem komi fram í hærri flutningsgjöldum.

Fjármálaráðherra kynnti upptöku kílómetragjaldsins samhliða fjárlagafrumvarpi næsta árs. Tillögurnar eru afrakstur verkefnahóps fjármálaráðuneytis og innviðaráðuneytis um framtíðargjaldtöku af samgöngum. Gjaldatakan hefur til þessa verið í gegnum vörugjöld á eldsneyti en þær tekjur hafa dregist saman með tilkomu rafbíla.

Nú er gert ráð fyrir að vörugjöldin falli niður en í staðinn verði tekið upp kílómetragjald frá næstu áramótum. Gjaldið verður föst krónutala af hverjum eknum kílómetra fyrir bíla upp að 3,5 tonnum. Gjaldið hækkar síðan í takt við þyngd bílanna þar sem þyngri bílar slíta vegakerfinu meira.

Óttast hækkun á flutningsgjöldum


Þessar tillögur voru í sumar til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Í sameiginlegri umsögn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) og Fjórðungssambands Vestfirðinga er almennt lýst stuðningi við þær grundvallarbreytingar að notendur borgi eftir notkun og fjármunirnir nýtist til að byggja upp samgöngumannvirki.

Þar er hins vegar hvatt til þess að ekki verið einblínt á umhverfismarkmið heldur líka horft til samfélagslegra og efnahagslegra áhrifa, svo sem samkeppnishæfni. Lýst er áhyggjum af að breytingar á gjaldtöku af þungaflutningum leiði til hækkunar á flutningsgjöldum og veiki samkeppnisstöðu fyrirtækja á landsbyggðinni. Þess vegna þurfi lengri tíma og víðtækara samráð til að meta áhrifum. Hvatt er til að skoða fleiri möguleika, svo sem að reyna að auka hlutdeild sjóflutninga til að draga úr landflutningum og sliti á vegum.

Vilja rýna forsendur gjaldheimtunnar nánar


Samböndin benda einnig á að skoða þurfi forsendurnar nánar. Þannig sé gert ráð fyrir að tekjur af umferð nemi 1,5% af vergri landsframleiðslu árið 2025 og verði komnar upp í 1,7% árið 2017, líkt og hlutfallið hafi verið á árunum 2010-17. Samböndin segja að þá hafi enn gætt áhrifa efnahagshrunsins og efast um að gjaldheimtan dugi til fyrir þeirri skuld sem myndast hafi í viðhaldi á vegum landsins.

Þá er gagnrýnt að forsendum frumvarpsins sé ekki greint nánar meðalakstur á bifreið. Þar er að finna töflu þar sem meðalakstur er skoðaður í 40 póstnúmerum. Flest þeirra eru í eða nágrenni höfuðborgarsvæðisins, ekkert af Vestfjörðum og aðeins Egilsstaðir af Austurlandi.

Í eðli sínu landsbyggðarskattur


Í umsögn Eimskips er varað við áhrifum á þungaflutningana. Fyrirtækið segir líkur á að flutningafyrirtæki skipti út stærri bílum fyrir minni til að spara sér pening en það verði kostnaðarsamara annars staðar með meira sliti á vegum, auknum útblæstri, óhagkvæmari flutningum og óöruggari því minni bílarnir komist ekki jafn mikið áfram í ófærð. Eimskip segir aukinn kostnað við flutninga bitna á íbúum landsbyggðarinnar og því sé gjaldtakan í eðli sínu landsbyggðarskattur.

Alþýðusambands Íslands vill hins vegar létta álögum af fólki sem þarf á einkabílum að halda en bendir á þyngri bíla sem slíti vegum meira. Í umsögn þess segir að álagningin hafi áhrif á tekjulægri hópa sem eigi minni möguleika á að kaupa sér rafbíl og almenningssamgöngur séu vart raunhæfar fyrir þá.

Vegagerðin leggur áhersla á að hvers konar gjaldtaka af umferð skili sér til reksturs, viðhalds og uppbyggingar vegakerfisins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar