Óvissustigi vegna snjóflóðahættu aflýst
Veðurstofan aflýsti á þriðja tímanum í dag óvissustigi vegna snjóflóðahættu á Seyðisfirði og Norðfirði sem verið hafði í gildi frá því um klukkan sex síðdegis í gær.Í veðrinu sem gekk yfir Austfirði í gær og nótt féllu nokkrar votar spýjur í Norðfirði og Seyðisfirði. Þær stöðvuðust hins vegar tiltölulega skammt neðan gilkjafa. Þær sem lengst fóru náðu niður í um 125 metra hæð yfir sjó.
Í tilkynningu ofanflóðadeildar Veðurstofunnar kemur fram að talsvert hafi snjóað í fjöll í nótt en neðar hafi rignt niður í snjóinn. Úrkoman sé núna gengin yfir og hætta á snjóflóðum í byggð talin hjá.
Áfram er varað við snjóflóðahættu í fjallendi. Fólk sem fer um svæði þar sem snjóflóð geta fallið þarf að hafa varann á sökum þess hve mikill nýr snjór er víða til fjalla á Austurlandi.