Ræða aukið samstarf austfirsku skíðasvæðanna
Í kjölfar fjölmenns fundar um framtíð austfirsku skíðasvæðanna snemma í vor hafa viðræður átt sér stað á milli Fjarðabyggðar og Múlaþings um stóraukið samstarf svæðanna. Nú er verið að skoða að samræma gjaldskrár og aðgangskerfi.
Mikil sóknarfæri eru af flestum talin vera til staðar með aukinni samvinnu skíðasvæðanna Oddsskarðs og Stafdals og þar ekki síst í aukinni vetrarferðamennsku sem er einn lykilþátta þess að fjölga ferðamönnum austanlands að vetrarlagi. Slík samvinna hefur lengi verið við lýði á Norðurlandi með stórgóðum árangri enda gefst þar gestum færi á að skíða á nokkrum mismunandi svæðum með einum passa og sama passanum.
Kannski allra fyrsta skrefið í þessa átt á Austurlandi var tekið síðasta veturinn þegar árskorthöfum Oddsskarðs bauðst að prófa brekkur Stafdals fimm sinnum sér að kostnaðarlausu og öfugt en ekki hefur verið ákveðið hvort eitthvað framhald verði á slíku í vetur þegar skíðasvæðin opna um áramótin.
Það sem nú er helst rætt að sögn Dagnýjar Erlu Ómarsdóttur, verkefnisstjóra íþrótta- og tómstundamála hjá Múlaþingi, er samræming gjaldskrá beggja svæða sem og að nota saman aðgangskerfi sem mun einfalda hlutina töluvert fyrir skíða- og brettaáhugafólk.
„Múlaþing og Fjarðabyggð eru í stöðugu samtali varðandi samstarf skíðasvæðanna. Við höfum trú á því að samtalið eigi eftir að skila sér á jákvæðan hátt fyrir bæði skíðasvæðin og að þau eflist frekar og dafni saman. Þá mun samstarfið einnig skila sér í enn betri upplifun þeirra sem njóta skíðaiðkunar á Austurlandi.“