Reyðfirðingar tóku völdin af fundarstjóra

Gestir á íbúafundi á Reyðarfirði í gærkvöldi um nýtingu söluandvirði Rafveitu Reyðarfjarðar risu upp gegn dagskrá fundarins og neituðu að ræða aðra kosti en því verði varið til að byggja nýtt íþróttahús.

Miklar deilur urðu á Reyðarfirði í desember þegar Rafveitan var seld til annars vegar Orkusölunnar, hins vegar Rarik fyrir upphæð sem eftir skatta nemur 410 milljónum króna. Hópur íbúa tók sig saman og mótmælti sölunni og söluferlinu.

Bæjarfulltrúar lofuðu strax að söluandvirðið færi til uppbyggingar á Reyðarfirði. Íþróttahúsið var strax nefnt til sögunnar, en reyndar einnig fleiri verkefni svo sem Stríðsárasafnið.

Síðustu vikur hefur verið deilt um viðgerðir á sundlauginni á Reyðarfirði, sem er undir núverandi íþróttahúsi. Laugin er talsvert skemmd og nýverið varð ljóst að ekki yrði ekki hægt að gera við hana áður en til sundkennslu kæmi í vor.

Bæjarfulltrúar vísuðu viðgerðunum inn í frekari uppbyggingu íþróttahúss en ótti greip um sig meðal Reyðfirðinga um að til stæði að nýta söluandvirðið í viðhald eða sundlauginni yrði lokað til frambúðar. Um leið blossaði upp á ný vantraust í garð bæjaryfirvalda í kjölfar sölunnar í desember. Það hefur verið áberandi í samræðum meðal Reyðfirðinga, meðal annars á Facebook, í aðdraganda fundarins í gær.

Ekki hlátur í hug

Því var vitað að hitafundur væri í vændum. Bæjarstjórnin fékk Héðinn Unnsteinsson, stjórnsýslufræðing, til að stýra fundinum. Héðinn, sem meðal annars er þekktur fyrir fyrirlestra sína um geðheilbrigði og bókina Vertu úlfur, hefur getið sér góðs orð fyrir fundarstjórn þar sem fundargestum er úthlutað ákveðnum fjármunum til að deila út á verkefni.

Héðinn reyndi að létta andrúmsloftið í byrjun fundar með að segja frá ferðum sínum um Austurland og vísa í frásagnir úr Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um fjórðunginn um miðja átjándu öld. Hann útskýrði einnig að ef gestir vildu ræða við kjörna fulltrúa skyldi það gert utan fundarsalarins, til dæmis í kaffihléi.

En þeir um það bil 120 gestir sem mættir voru til fundarins var ekki hlátur í hug. Héðinn þurfti strax að sýna ákveðni til að fá að ljúka máli sínu þegar gestur í sal rétti upp og vildi fá að koma í pontu.

Kusu með fótunum

Héðinn náði reyndar ekki að klára gamansögurnar né útskýra aðferðafræði sína. Strax byrjuðu frammíköll og þegar úr salnum var kallað „standið á fætur sem viljið nýtt íþróttahús“ stóðu svo til allir gestir í sal á fætur.

Frammíköllin héldu áfram. Spurt var hvort bæjarfulltrúar þyrðu ekki að horfa framan í íbúa og ræða þá, sömuleiðis hvort kostnaðurinn við fundinn væri greiddur með söluandvirði Rafveitunnar og hvort til stæði að nýta það meðal annars til viðhalds Fjarðabyggðarhallarinnar. Við bættust áskoranir um að þeirri sem rétti upp höndina, Hörpu Vilbergsdóttur, yrði gefið orðið.

Héðinn reyndi að róa salinn með að orðum að hann hefði aldrei ætlað sér að þvinga einn né neinn til neins. Það væri bæjarfulltrúa að ákveða hvort fundinum yrði breytt í hefðbundinn íbúafund með fyrirspurnum úr sal. Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar, sagði að tilgangur fundarins hefði meðal annars verið að finna út hvort íbúar hefðu sýn fyrir Reyðarfjörð til framtíðar. Fundargestir svöruðu honum að það yrði gert á öðrum vettvangi síðar, ekki skyldi drepa íþróttahússmálinu á dreif.

Ekki komin til að ræða annað en íþróttahús

Að því loknu gaf hann Hörpu orðið sem sagðist tala fyrir hönd Íbúasamtaka Reyðarfjarðar og starfshóps á vegum Ungmennafélagsins Vals um nýtt íþróttahúss. Hún las upp áskorun til bæjarvalda um að hefjast þegar handa við byggingu nýs íþróttahúss og verja til þess söluandvirði Rafveitunnar, líkt og bæjarstjórn hefði bókað við söluna. Ljóst væri að gert yrði við sundlaugina í sumar og óþarfi væri að ræða það frekar.

Hún sagðist ekki skjóta niður hugarflugsfund um Reyðarfjörð, íbúasamtökin hefðu þegar staðið fyrir einum slíkum síðasta haust og þar hefði íþróttahúsið verið efst. „Þessi fundur er helgaður umræðu um nýtt íþróttahús. Við erum reiðubúin að fara í hópa til að ræða það og annað ekki,“ sagði Harpa og uppskar mikið lófaklapp úr salnum.

Beðið eftir Samkeppniseftirlitinu

Héðinn spurði fundargesti hvernig þeir vildu nýta fundinn. Viðbrögðin voru ákall um skýr svör frá bæjarstjórn um útfærslu á nýju íþróttahúsi og hvernig því yrði komið sem fyrst í framkvæmd. Fundinum var breytt þannig að fulltrúar allra flokka í bæjarstjórn komu á svið til að sitja fyrir svörum, en jafnframt ákveðið að nýta tímann að fyrirspurnum loknum í að ræða nýtt íþróttahús.

Bæjarfulltrúarnir voru meðal annars spurðir út í hvort til hefði staðið að taka fjármuni af sölu Rafveitunnar til viðhalds Fjarðabyggðarhallarinnar. Því hafnaði Eydís Ásbjörnsdóttir, oddviti Fjarðalistans og formaður bæjarráðs.

Spurt var hve stór hluti söluandvirðisins hefði verið greiddur. Jón Björn svaraði því að Rarik væri búið að greiða fyrir dreifikerfið. Orkusalan keypti viðskiptahlutann. Hann hefur ekki verið greiddur enn þar sem beðið er eftir staðfestingu Samkeppniseftirlitsins á sölunni. Það hefði vegna anna tekið sér aukafrest og hefði því nokkrar vikur. Hann kvaðst ekki reikna með öðru en jákvæðu svari þar sem Rafveita Reyðarfjarðar væri ekki hlutfallslega stór á landsmarkaði.

Þá var spurt út í undirbúning framkvæmda sveitarfélagsins og forgangsröðun, meðal annars leikskóla og hvort komið hefði á óvart að endurnýja þyrfti íþróttahúsið. Jón Björn svaraði að mikið hefði verið byggt upp á stóriðjutímabilinu, meðal annars Grunnskólinn á Reyðarfirði. Ágætlega hefði litið út með afborganir fram að efnahagshruninu 2008. Við það hefðu forsendur breyst og miklar skuldir lagst á Fjarðabyggð.

Ekki vantaði viljann til að framkvæma en fjármunirnir væru takmarkaðir. Verið er að stækka leikskólann á Reyðarfirði, líkt og ákveðið var á síðasta kjörtímabili og framundan er stækkun leikskólans á Eskifirði. Ekki hefði verið útlit fyrir að hægt yrði að ráðast í íþróttahús á Reyðarfirði áður en Rafveitan var seld í desember.

Viljugir til að hraða vinnu en lofa ekki tímaáætlun

Spurt var hvað hægt væri að gera til að flýta framkvæmdum og hvort kjörnir fulltrúar treystu sér til að leggja fyrir lok þessa mánaðar tímasetta áætlun um byggingu nýtt íþróttahús. Bæði Jón Björn og Einar Már Sigurðarson, formaður eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar, svöruðu að nokkurt ferli væri framundan.

Byrja þyrfti á að ákveða hvaða aðstaða ætti að vera í húsinu, síðan hanna það. Samhliða þessu þyrfti að fara í skipulagsvinnu. Þeir hétu því að verkið yrði eins hratt og hægt væri, en hvorugur treysti sér til að lofa að tímaáætlun lægi fyrir áður en mánuðurinn væri úti.

Ragnar Sigurðsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks og fulltrúi í skipulagsnefndinni, tók þó undir að stefnt yrði á að slík áætlun yrði tilbúin þá. Hann sagðist líta svo á að skilaboð fundarins væru skýr um ákveðið væri að söluandvirði Rafveitunnar yrði varið til uppbyggingu íþróttahúss.

Hugarflug um íþróttahús

Að loknum fyrirspurnum til bæjarfulltrúa var tekið kaffihlé og eftir það var kynning frá starfshópi UMF Vals um nýtt íþróttahús. Þar var farið yfir undirbúning hópsins til þessa. Hópurinn kynnti hugmyndir sínar um að nýtt 50x30 metra íþróttahús, sem þannig rúmi löglegan keppnisvöll fyrir körfuknattleik og flestar aðrar innanhússíþróttir, á svæði ofan við Fjarðabyggðarhöllina og núverandi íþróttahús.

Í kjölfar þess sátu fundargestir saman í hópum á borðum og unnu hugmyndir að nýju íþróttahúsi. Tillögurnar voru ekki kynntar á sviði áður en fundi var slitið en verða teknar saman af starfsmönnum Fjarðabyggðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.