Ríflega 500 Austfirðingar bólusettir um helgina

Ríflega 500 Austfirðingar komu um helgina í bólusetningu gegn mislingum á heilsugæslustöðvunum á Egilsstöðum og Eskifirði. Áfram er bólusett og eru þeir sem aldrei verið bólusettir í forgangi.

„Þetta gekk mjög vel um helgina. Álagið dreifðist nokkuð jafnt og við vorum vel mönnuð,“ segir Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA).

Seinn part föstudags var staðfest að manneskja á Egilsstöðum hefði greinst með mislinga og var hún sú fimmta á landinu. Í tilkynningu frá sóttvarnalækni kemur farm að alls hafi verið skoðuð um 50 sýni en ekki hafi komið fram fleiri staðfest tilfelli.

Áfram verður bólusett. Samkvæmt tilkynningu frá HSA verða á næstu dögum eingöngu bólusettir einstaklingar sem aldrei hafa fengið bólusetningu við mislingum og eru á aldrinum 6-18 mánaða, eða fæddir eftir árið 1970.

Bólusett verður í dag mánudag og morgun þriðjudag í skrifstofu framkvæmdastjórnar HSA að Lagarási 22 á Egilsstöðum og heilsugæslustöðinni Eskifirði frá 9-12 og 13-15.

Ekki þarf að panta tíma. Hins vegar falla tímar sem bókaðir hafa verið þá sem ekki falla undir forgangshópinn niður.

Von er á meira bóluefni til landsins um miðja vikuna. Til þessa hafa Austurland og höfuðborgarsvæðið verið í forgangi en unnið er að bólusetningaráætlun fyrir landið allt.

Frekari upplýsingar má finna á sérstökum vef landlæknis og á vef HSA. Eins eru upplýsingar á www.heilsuvera.is en þar geta einstaklingar flett upp bólusetningum sínum aftur til ársins 2002. Eins er sólarhringsvakt fyrir landið allt í síma 1700.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.