Ruðningsbíllinn gat ekki kallað eftir hjálp
Björgunarsveitin Sveinungi á Borgarfirði var í dag kölluð út til að aðstoða bílstjóra snjóruðningsbíls sem lenti í vandræðum á leið af Vatnsskarði niður í Njarðvík. Bílstjórinn gat ekki kallað sjálfur eftir aðstoð þar sem ekkert farsímasamband er á svæðinu.Bíllinn festist á veginum niður í Njarðvík, skammt frá námu sem var þar opnuð til að vinna efni í vegaframkvæmdir sem þar hafa staðið yfir í meira en ár.
Vegna þess að ekkert GSM-samband er í Njarðvík gat bílstjórinn ekki látið vita af sér. Starfsmenn Vegagerðarinnar í Fellabæ urðu þess hins vegar varið að bíllinn hreyfðist ekki lengur og kölluðu út björgunarsveitarmenn.
Félagar í Sveinunga fóru á staðinn og þurftu að ganga síðustu tvo kílómetrana til að ná bílstjóranum. Hann hefur síðan dvalið í góðu yfirlæti á Borgarfirði.
Í kjölfarið var sendur snjóblásari á vettvang til að losa bílinn. Ekki tók þá betra við því blásarinn fór út af. Hefur annar slíkur verið sendur á staðinn til að greiða úr málum. Hann var á leiðinni á staðinn um klukkan níu í kvöld, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.
Mynd úr safni.
Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var sagt að ruðningsbíllinn hefði farið út af og blásarinn bilað.