Rúnar gefur kost á sér hjá Pírötum
Rúnar Gunnarsson, yfirhafnarvörður á Seyðisfirði og fulltrúi í heimastjórn, hefur ákveðið að gefa kost á sér í prófkjöri Pírata í Norðausturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar.Rúnar er fæddur og uppalinn Seyðfirðingur en hefur komið víða við á sinni ævi. Hann starfaði við fiskvinnslu þar og í Danmörku áður en hann fluttist til Englands árið 1996. Þar vann hann sem verkstjóri við uppsetningu tjalda sæta fyrir stóra viðburði bæði þar í landi og víðar í Evrópu.
Hann flutti aftur til Íslands árið 2010 ásamt konu sinni, Rikki Lee Gunnarsson og tveimur börnum þeirra. Hann vann í fiskvinnslu til ársins 2017 að hann tók við rekstri tjaldsvæðis og upplýsingamiðstöðvar Seyðisfjarðar.
Hann tók við sem yfirhafnarvörður 2018 og var sama ár kjörinn í bæjarstjórn Seyðisfjarðar þar sem hann varð formaður bæjarráðs. Þá útskrifaðist Rúnar með stúdentspróf úr háskólabrú Keilis árið 2019.
Í tilkynningu segist Rúnar hafa velt því lengi fyrir sér að taka þátt í starfi Pírata og fengið jákvæð viðbrögð um að gefa kost á sér. Hann kveðst hafa mikinn áhuga á byggðamálum, sjávarútvegs- og fiskeldismálum, jafnréttis- og velferðarmálum ásamt öðru sem hann hafi fram að færa. Þá kveðst hann óhikað vilja nýja stjórnarskrá. Hann er tilbúinn að taka hvert það sæti sem hann fær í kjörinu.
Þar kveðst Rúnar ennfremur hafa fjölbreytt áhugamál, svo sem spilamennsku, bjórbruggun og trésmíði. Þá hefur hann starfað með Leikfélagi Seyðisfjarðar og er meðal skipuleggjenda gleðigöngunnar Hýrrar halarófu á Seyðisfirði.