Sami sýslumaður á Norðurlandi eystra og Austurlandi

Svavar Pálsson, sýslumaður á Norðurlandi eystra, mun næsta árið einnig gegna embætti sýslumannsins á Austurlandi. Lárus Bjarnason lætur innan skamms af embætti sem sýslumaður Austurlands.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu. Skipanin gildir frá 1. nóvember í ár til 31. október árið 2025.

Lárus Bjarnason, sýslumaður á Austurlandi, lætur af embætti um mánaðamótin. Hann var upphaflega skipaður bæjarfógeti og síðar sýslumaður í Norður-Múlasýslu árið 1989 og varð sýslumaður á Austurlandi árið 2015 við breytingar á embættunum.

Í tilkynningu ráðuneytisins segir að sú ákvörðun að setja sýslumann yfir tvö embætti samræmist áherslum yfirvalda í málefnum sýslumanna, þar á meðal að bæta þjónustuna við almenning með því að fella niður áhrif umdæmismarka og auka hagkvæmni við rekstur embættanna.

Þannig hefur Kristín Þórðardóttir, sýslumaðurinn á Suðurlandi, verið sett tímabundið yfir embætti sýslumanns í Vestmannaeyjum frá október 2023 og Birna Ágústsdóttir yfir sýslumannsembættið á Vesturlandi frá júní 2024.

Á Austurlandi eru sýsluskrifstofur á Seyðisfirði, Eskifirði, Egilsstöðum og Vopnafirði.

Árið 2022 kynnti Jón Gunnarsson, þáverandi dómsmálaráðherra, áform um að sameina öll sýslumannsembætti landsins í eitt. Frá því var hins vegar horfið þegar Guðrún Hafsteinsdóttir tók við embættinu í fyrra.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.