Skip to main content

Samið um hönnun annars hluta Safnahússins á Egilsstöðum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. sep 2024 11:32Uppfært 02. sep 2024 11:32

Lokahönnun viðbyggingar við Safnahúsið á Egilsstöðum skal lokið fyrir maí á næsta ári og verður framkvæmdin boðin út strax í kjölfarið.

Þetta er kunngjört á vef Múlaþings en samið hefur verið við arkitektastofuna ARGOS um hönnun á þessum næsta áfanga byggingarinnar en núverandi húsnæði löngu búið að sprengja utan af sér. Upphaflega stóð til að þrjár burstir yrði á húsinu þegar bygging þess hófst fyrir 42 árum síðan en enn sem komið er aðeins um eina burst að ræða.

Þó formlegt samkomulag hafi ekki legið fyrir fyrr en nú hafa arkitektar ARGOS í samvinnu við forstöðufólk Safnahússins unnið að hönnunarferlinu í rúmt ár. Innan veggja hjá ARGOS er einmitt upphaflegur arkitekt hússins Stefán Örn Stefánsson.

Allar teikningar skulu vera tilbúnar fyrir 1. maí á næsta ári en að þeim áfanga loknum er gert ráð fyrir mun betra aðgengi að bókasafninu sem færist niður um eina hæð, auknu sýningarrými innan hússins auk þess sem aðstaða öll fyrir starfsfólk batnar til muna.