Samningi um rekstur hjúkrunarheimila í Fjarðabyggð sagt upp

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar hefur samþykkt með 9 atkvæðum að samningi við Sjúkratryggingar Íslands um rekstur hjúkrunarheimilanna í Fjarðabyggð verði sagt upp og felur bæjarstjóra framkvæmd uppsagnarinnar.

Þetta segir í nýrri fundargerð bæjarstjórnarinnar. Þar er málið reifað og kemur fram að málefni hjúkrunarheimilanna í Fjarðabyggð hafa verið um langt skeið til ítarlegrar umfjöllunar innan nefnda og ráða sveitarfélagsins.

„Jafnframt hafa bæjaryfirvöld verið um árabil í viðræðum við heilbrigðisyfirvöld um málaflokkinn þar sem ljóst er að fjárhagslegur grundvöllur reksturs þeirra er brostinn, þrátt fyrir að yfirstjórn og starfsfólk þeirra hafi kappkostað að haga rekstrinum sem best um leið og staðinn hefur verið vörður um faglegt starf og kröfur, og hefur verið um langa tíð,“ segir í fundargerðinni.

„Þessar viðræður hafa engan árangur borið og því getur sveitarfélagið Fjarðabyggð ekki unað lengur.“

Taprekstur upp á 150 milljónir króna

Ennfremur kemur fram að vaxandi taprekstur hafi verið á rekstri heimilanna síðan árið 2014 og er hallinn orðinn um 150 milljónir króna á þessum tíma. Þá hefur sveitarfélagið lagt þeim til fé á móti úr rekstri sínum þrátt fyrir ábyrgð málaflokksins sé á hendi ríkisvaldsins .

„Þá hefur ótal sinnum verið bent á það ósamræmi sem er í rekstrarumhverfi hjúkrunarheimilanna þar sem sum þeirra eru nú fjármögnuð beint af ríkisframlögum,“ segir í fundargerðinni.

„Vegna þessa sér bæjarstjórn Fjarðabyggðar sér ekki annað fært en að taka undir með framkvæmdaráði hjúkrunarheimilanna, félagsmálanefnd og bæjarráði sveitarfélagsins og samþykkir að segja upp samningi um rekstur þeirra við Sjúkratryggingar Íslands", segir einnig.

„Um leið minnir bæjarstjórn á að ríkisvaldinu er skylt að taka við rekstrinum þannig að enginn brestur verði á þjónustu við heimilismenn á hjúkrunarheimilunum og réttindi og kjör starfsmanna þeirri haldist óbreytt líkt og kom fram við svipaðar aðstæður á Akureyri nú síðsumars er ríkisvaldið samþykkti að taka við rekstri Öldrunarheimila Akureyrar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar