Sara Elísabet sveitarstjóri á Vopnafirði

Hreppsráð Vopnafjarðarhrepps hefur lagt til að Sara Elísabet Svansdóttir verði ráðin í starf sveitarstjóra fram yfir sveitarstjórnarkosningar vorið 2022.

Þetta kemur fram í fundargerð hreppsráðs frá í síðustu viku en sveitarstjórn tekur endanlega ákvörðun um ráðninguna í næstu viku. Sara Elísabet var ráðin sem skrifstofustjóri í ágúst í fyrra en hefur sinnt störfum sveitarstjóra eftir að samið var um starfslok við Þór Steinarsson um miðjan febrúar.

Samkvæmt bókun hreppsráðs verður Söru veitt lausn frá störfum skrifstofustjóra meðan á tímabundinni ráðningu hennar sem sveitarstjóra stendur, frá 20. maí næstkomandi og til loka kjörtímabilsins.

„Starfið leggst mjög vel í mig. Ég er ánægð með þessa lausn,“ sagði Sara Elísabet í samtali við Austurfrétt.

Ýmis verkefni eru framundan hjá sveitarfélaginu og nýjum sveitarstjóra. Einna helst má nefna umsókn um stofnframlag til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar fyrir byggingu íbúðarhúsnæðis, nýja heimasíðu, stafrænt skjalastjórnunarkerfi, jafnlaunavottun og nýtt vallarhús sem vígt verður í sumar.

Sara Elísabet er 38 ára gömul, alin upp í Reykjavík, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík, B.Sc. gráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands og síðar M.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá skólanum.

Áður en hún fluttist austur starfaði hún í þrjú ár sem sérfræðingur í gæðamálum hjá bílaumboðinu Öskju. Þar á undan var hún markaðsstjóri hjá Saga Medica og starfaði í markaðsdeild Icelandair. Áður vann hún í tíu ár hjá Actavis, síðast sem sérfræðingur í hráefnateymi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.