Selta orsakavaldur víðtæks rafmagnsleysis
Mikil selta sem settist á dreifikerfi raforku er talin orsök víðtækra rafmagnstruflana á Austurlandi í gær. Viðgerð lauk á tólfta tímanum í gærkvöldi.Rafmagn fór af víða á Austurlandi í gær, bæði norðan- og sunnan verðum Seyðisfirði, Mjóafirði, norðanverðum Vopnafirði, sunnanverðum Fáskrúðsfirði og frá Stöðvarfirði út að Kambanesi.
Þá duttu allar línur á Úthéraði upp að Fjallsseli í Fellum. Einna verst var ástandið á Jökuldal, en rafmagnið fór fyrst af á Efra-Dal fyrir miðnætti á mánudagskvöld og komst ekki aftur á fyrr en eftir kvöldmat í gær.
Samkvæmt upplýsingum frá Rarik Austurlandi eru truflanirnar nær alfarið raktar til seltu sem kom með mikilli úrkomu á Austfjörðum í fyrrinótt. Hlutfall seltu í henni var mun meira en reiknað hafði verið með. Tveir staurar brotnuðu, annar á Jökuldal, hinn í Hjaltastaðaþingá.
Viðgerðaflokkar unnu langan vinnudag, en síðustu viðgerðunum lauk skömmu fyrir miðnætti. Var þá búið að koma á rafmagni á öllu svæðinu.
Dreifikerfið á því að vera í ágætu ástandi. Íbúar í Neskaupstað mega þó búast við straumleysi næstu tvær nætur vegna vinnu við flutningskerfi Landsnets, en framundan er að styrkja flutningskerfið til bæjarins.
Rafmagn verður framleitt með díselrafstöðvum á meðan en íbúar eru hvattir til að spara rafmagn eins og hægt er þannig ekki þurfi að koma til skömmtunar.
Straumlaust verður frá klukkan 23:30 í kvöld til 7:00 í fyrramálið. Aðfaranótt föstudags má búast við lengra straumleysi þar sem stefnt er á að hefja vinnu fyrr á fimmtudagskvöld.