Selta orsakavaldur víðtæks rafmagnsleysis

Mikil selta sem settist á dreifikerfi raforku er talin orsök víðtækra rafmagnstruflana á Austurlandi í gær. Viðgerð lauk á tólfta tímanum í gærkvöldi.

Rafmagn fór af víða á Austurlandi í gær, bæði norðan- og sunnan verðum Seyðisfirði, Mjóafirði, norðanverðum Vopnafirði, sunnanverðum Fáskrúðsfirði og frá Stöðvarfirði út að Kambanesi.

Þá duttu allar línur á Úthéraði upp að Fjallsseli í Fellum. Einna verst var ástandið á Jökuldal, en rafmagnið fór fyrst af á Efra-Dal fyrir miðnætti á mánudagskvöld og komst ekki aftur á fyrr en eftir kvöldmat í gær.

Samkvæmt upplýsingum frá Rarik Austurlandi eru truflanirnar nær alfarið raktar til seltu sem kom með mikilli úrkomu á Austfjörðum í fyrrinótt. Hlutfall seltu í henni var mun meira en reiknað hafði verið með. Tveir staurar brotnuðu, annar á Jökuldal, hinn í Hjaltastaðaþingá.

Viðgerðaflokkar unnu langan vinnudag, en síðustu viðgerðunum lauk skömmu fyrir miðnætti. Var þá búið að koma á rafmagni á öllu svæðinu.

Dreifikerfið á því að vera í ágætu ástandi. Íbúar í Neskaupstað mega þó búast við straumleysi næstu tvær nætur vegna vinnu við flutningskerfi Landsnets, en framundan er að styrkja flutningskerfið til bæjarins.

Rafmagn verður framleitt með díselrafstöðvum á meðan en íbúar eru hvattir til að spara rafmagn eins og hægt er þannig ekki þurfi að koma til skömmtunar.

Straumlaust verður frá klukkan 23:30 í kvöld til 7:00 í fyrramálið. Aðfaranótt föstudags má búast við lengra straumleysi þar sem stefnt er á að hefja vinnu fyrr á fimmtudagskvöld.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.