Semja um byggingu 53 íbúða í Fjarðabyggð

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar hefur samþykkt rammasamning um byggingu allt að 53 íbúða í par- eða raðhúsum á Norðfirði, Eskifirði, Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði á næstu fimm árum.

Þetta kemur fram á vefsíðu Fjarðabyggðar. Þar segir að bæjarstjórnin samþykkti á fundi sínum í síðustu viku rammasamning við byggingafyrirtækin Hrafnshól og Nýjatún um mikla uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Fjarðabyggð á næstu fimm árum. 

„Íbúðirnar verða reistar í nokkrum áföngum á þessu árabili, en gert verður sérstakt samkomulag um hvern áfanga fyrir sig. Miðað er við að byggðar verði hagkvæmar íbúðir sem meðal annars uppfylla skilyrði fyrir almennu íbúðarhúsnæði eða hlutdeildarlánum við fyrstu íbúðarkaup. Áformað er að hefja byggingu húsa á þessu ári á Reyðarfirði,“ segir á vefsíðunni.

Þá segir að samningurinn kveði einnig á um vilja beggja aðila til að koma á svipuðu samstarfi varðandi uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á Stöðvarfirði og í Breiðdal ef eftirspurn skapast á þeim stöðum.

„Auk þessa hefur talsverðum fjölda af lóðum hefur verið úthlutað að undanförnu í Fjarðabyggð til fyrirtækja og einstaklinga sem hyggja á byggingaframkvæmdir. Er það ánægjuleg þróun og verður spennandi að fylgjast með áframhaldandi uppbyggingu í vaxandi samfélagi,“ segir á vefsíðunni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar